Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 15:48:18 (1098)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í ræðu minni áðan tel ég sjálfsagt og meira en það að hv. efh.- og viðskn. fjalli um brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. samhliða því að hún fjallar um frv. Ég er viss um að þar má skerpa orðalag, m.a. með hliðsjón af og að fengnum þeim ábendingum sem þar koma fram, en ég leyfi mér að endurtaka þá fyrirvara sem ég gerði við það að færa tölusett mörk inn í þessa löggjöf á þessu stigi máls. Ég tel miklu eðlilegra að þarna mótist verklagsreglurnar í úrskurðum samkeppnisráðs og samkeppnisstofnunar. Það er mjög eðlilegt að sú stofnun setji sér innri reglur til viðmiðunar. Það mun gerast af sjálfu sér en ég tel ekki heppilegt að löggjafinn festi þessar tölur. Það má vel vera að það geti einhvern tíma reynst rétt en bendi á að hjá okkur skiptir oft miklu máli hin ytri samkeppni. Er fyrirtæki, sem er tiltölulega stórt á okkar innlenda markaði, í opinni samkeppni við erlenda aðila? Ef það er skipta hlutfallstölurnar minna máli en ella.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að lengja umræðuna um samþjöppun efnahagslegs valds og afleiðingar af henni í þjóðfélaginu, ekki á þessari stundu. Ég tel mjög brýnt að stjórnvöld fái íhlutunarrétt um þau atriði eins og tíðkast í flestum þróuðum ríkjum. Ég vildi taka það fram að í umræðum og umsögnum um frv. hafa komið fram bæði sjónarmiðin, annars vegar að það gangi allt of langt í þessum efnum. Þau sjónarmið komu m.a. fram hjá samtökum vinnuveitenda sem vilja ekki hafa þessi ákvæði inni í lögunum. Aftur telja aðrir að þau gangi of skammt. Hér er um nýmæli að ræða í íslenskri löggjöf. Vafalaust á þetta ákvæði eftir að taka breytingum í tímans rás. Ég er hins vegar sannfærður um það að þetta er góð byrjun á þessu máli og heppilegri en setja þarna tölusett mörk.