Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:06:45 (1100)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeim samstarfsvilja sem fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl. um að gera þetta frv. þannig úr garði og lagasetninguna sem fylgir að það geti orðið til þess að auka traust á stjórnvaldsákvörðunum í samkeppnismálum. Það er einmitt það sem fyrir mér vakir sem flm. þessa máls að skapa slíkt traust. Ég tek fram að það er erfitt að finna leið þar sem allir eru ásáttir um skipun samkeppnisráðsins, tilnefningu aðila og fleira af því tagi. Í frv. er gerð tilraun til þess að auka traust á stjórnvaldsákvarðanirnar með því að hafa sérstaka áfrýjunarnefnd í stað áfrýjunar til ráðuneytis eins og mjög oft er á öðrum sviðum stjórnsýslunnar. Ég get náttúrlega alls ekki aðstoðað hv. 1. þm. Austurl. við skilning á því hvers vegna ég vísaði til fiskveiðistjórnarlaganna. En ég endurtek að þótt þar sé fjallað um eðlisólíkt svið þarf þar líka að gilda sama regla, að málum sé skipað svo að stjórnvaldsákvarðanir séu áfrýjanlegar, menn eigi kost á leiðréttingu sinna mála. Ég mun sannarlega leita eftir því í samstarfi við efh.- og viðskn. að finna form og skipan á þetta sem geti tryggt þetta traust.
    Ég er hins vegar alls ekki sammála hv. 1. þm. Austurl. um að þarna sé verið að byggja upp umfangsmikið og flókið stjórnsýslubákn. Fimm manna samkeppnisráð kemur í stað níu manna verðlagsráðs. Síðan kemur sérstök áfrýjunarnefnd sem hittist vonandi mjög sjaldan og miklu sjaldnar en ráðið og yrði skipuð óháðum mönnum. Ég þarf ekki að taka það fram en ætla þó að gera það að ráðherrann hlýtur jafnan, það mun ég a.m.k. gera, að líta eingöngu á fagleg sjónarmið þegar valdir eru menn í samkeppnisráðið. En það eru líka stjórnmálasjónarmið, hin faglegu sjónarmið eru það, þ.e. það viðhorf að velja menn til starfa eftir faglegum sjónarmiðum. Ég er alveg sannfærður um að við erum sammála um það, ég og hv. 1. þm. Austurl.
    Vegna þess sem hv. þm., hinn fyrsti frá Austurlandi, nefndi um auglýsingamálin, þá hélt ég því alls ekki fram, honum hlýtur að hafa misheyrst, að ég teldi hann andvígan ákvæðunum í frv. um auglýsingarnar sjálfar. Það nefndi ég hvergi enda ekki ástæða til því á það var heldur ekki minnst af hv. þm. í ræðu hans hér áðan. Hins vegar lýsti hann andstöðu við að þarna væri sérstakur vettvangur, fastanefnd innan samkeppnisráðsins, sem fjallaði um auglýsingarnar. Ég minnti á og rifjaði upp að aðdragandi þess máls var sérstök tillaga um lagasetningu um auglýsingar í öðru formi og það er talið mikilvægt af þeim sem um þennan vettvang hugsa og á honum hafa vit að hafa þarna sérstakan farveg fyrir meðferð auglýsingamálanna sem eru á ýmsan hátt annars eðlis en önnur samkeppnismál. Það er alveg fráleitt að halda því fram að þarna sé verið að búa til flækjur í stjórnkerfinu. Það er samkeppnisráðið sem á endanum fjallar um þetta og það horfir til einföldunar frá tillögum um meðferð auglýsingamála sem hv. þm. meðal annarra stóð að sem stjfrv. í mörgum umferðum.
    Ég vona því að þetta einfaldaða stjórnkerfi standi mál gagnvart þeim eðlilegu kröfum hv. þm. að hafa hlutina ekki flóknari eða orð fleiri en þörf krefur. Ég er honum einlæglega sammála um að það mætti gjarnan stytta marga lagatexta og bíð eftir tillögum um hvernig best væri að stytta þennan og sannarlega skal ekki á mér standa að hugleiða það að fallast á slíkar tillögur.
    Þá kem ég að því sem er mikilvægast í máli hv. 1. þm. Austurl. og það er nauðsyn víðtækrar samstöðu um að tryggja íslenskum atvinnuvegum sem besta samkeppnisstöðu. Undir það tek ég með honum og á það mun reyna á næstu vikum og mánuðum.