Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:11:23 (1101)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um gagnkvæma viðurkenningu á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi. Tilskipun nr. 89/48/EBE um viðurkenningu prófskírteina tekur til skírteina sem veitt eru að loknu þriggja ára námi eða starfsþjálfun á æðra skólastigi. Slíkar viðurkenningar eru veittar hér á landi af mismunandi aðilum eftir því um hvaða starfsundirbúning er að ræða og málsmeðferðin einnig nokkuð mismunandi. Í sumum tilvikum er kveðið á um það í lögum hvernig með skuli farið og í öðrum hefur skapast ákveðin hefð hvað varðar málsmeðferð.
    Það er vafasamt að unnt sé að ná til allra tilvika sem upp kunna að koma hvað varðar einstök störf með lagasetningu. Því er farin sú leið sem farin var í Danmörku að setja ein lög sem taka til þeirra lögvernduðu starfa sem tilskipun 89/48 nær til og kveða á um að þeir ríkisborgarar í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem fullnægja skilyrðum tilskipunarinnar hafi rétt til að stunda viðkomandi starfsgrein á Íslandi, annaðhvort sem sjálfstæðir atvinnurekendur eða sem launþegar með þeim sömu skilyrðum og gilda um íslenska ríkisborgara.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er því sniðið eftir danska frv. um sama efni sem danska þingið samþykkti í maí 1991. Auk þess hafa verið felld inn í þetta frv. ákvæði frv. til laga um starfsréttindi norrænna ríkisborgara sem lagt var fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Markmið frv. er í fyrsta lagi að koma tilskipun 89/48 til framkvæmda en hún fjallar um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna menntunar er leiðir til starfsréttinda að loknu þriggja ára námi á æðra skólastigi og í öðru lagi að afla heimildar til að koma í framkvæmd hliðstæðum reglum sem EB samþykkti nýlega og taka til prófskírteina sem áðurnefnd tilskipun tekur ekki til. Í þriðja lagi er markmið frv. að koma til framkvæmda sambærilegum samningum sem samþykktir hafa verið af Norðurlandaráði og staðfestir af stjórnvöldum norrænna ríkja.
    Með þessu er verið að auðvelda ríkisborgurum innan Evrópska efnahagssvæðisins og innan Norðurlanda að stunda starf sitt í öðru landi en því sem þeir hlutu menntun sína og starfsþjálfun í. Það ber að hafa í huga að hugtakið ,,æðra skólastig`` er ekki skilgreint í reglum EB og verður því hvert land fyrir sig að ákveða hvaða starfsheiti falla undir tilskipun 89/48. Hér á landi er eðlilegast að miða við störf sem krefjast a.m.k. þriggja ára undirbúningsnáms á háskólastigi. Þar eð tilskipunin tekur aðeins til lögverndaðra starfa eru það ekki mjög mörg störf hér á landi sem falla undir hana. Í fskj. 3 með frv. er bráðabirgðayfirlit yfir þau störf sem tilskipunin tekur til en það er unnið að því fullgera þessa skrá.
    Leggja ber áherslu á að tilskipunin tekur aðeins til gagnkvæmrar viðurkenningar á prófskírteinum og öðrum jafngildum gögnum en að fenginni slíkri viðurkenningu hafa útlendingar, sem tilskipunin nær til, jafnt sem íslenskir ríkisborgarar að verða sér úti um starfsleyfi eða löggildingu hjá viðkomandi yfirvöldum í þeim tilvikum sem þess er krafist. Að þessu loknu standa útlendingar sem hingað koma og leita hér eftir starfi jafnfætis íslenskum ríkisborgurum hvað varðar umsóknir um störf, en að sjálfsögðu er það vinnuveitandans að ákveða hvaða umsækjanda hann velur.
    Það telst andstætt umræddri tilskipun að synja umsækjanda um viðurkenningu á prófgögnum á þeirri forsendu að hann hafi ekki vald á íslenskri tungu nema því aðeins að þekking og færni í íslensku sé óhjákvæmileg forsenda fyrir því að geta stundað það starf sem um er að ræða. Þetta á t.d. við um grunnskólakennara.
    Um nokkur starfsheiti gilda sérstakar tilskipanir. Má þar nefna lækna, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, dýralækna, ljósmæður, lyfjafræðinga og arkitekta. Með samþykkt tilskipunar 89/48 hefur EB horfið frá því að gefa út tilskipun um hvert starfsheiti fyrir sig en setur í þess stað almennar reglur sem taka til margra starfa.
    Í júní sl. samþykkti EB tilskipun 92/51/EBE sem tekur til starfsheita sem krefjast ekki nema eins árs náms og starfsþjálfunar hið minnsta og liggja fyrir utan gildissvið tilskipunar 89/48. Þessi tilskipun, sem á að koma til framkvæmda innan tveggja ára, mundi taka til starfsmenntunar sem hér á landi er veitt í framhaldsskólum, svo sem iðnmenntunar. Rétt er að skýra einstakar greinar nokkuð nánar.
    1. gr. fjallar um gildissvið frv., er það tekur til löggiltra starfa, sem falla undir þessa tilskipun, 89/48, og aðrar hliðstæðar tilskipanir sem verða hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Frv. tekur einnig til hliðstæðra reglna sem samþykktar hafa verið af ríkisstjórnum Norðurlanda.
    Í 2. gr. eru skilgreind nánar þau skilyrði sem þarf til að mega stunda starf hér á landi. Gerð er krafa um að viðkomandi hafi ríkisborgararétt í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða í einhverju Norðurlandanna. Enn fremur er gerð krafa um að viðkomandi fullnægi þeim kröfum sem settar eru fram í tilskipunum eða samningum sem nefndir eru í 1. gr.
    Í 3. gr. er kveðið á um að þau stjórnvöld sem nú fjalla um og afgreiða umsóknir um leyfi til að leggja stund á tiltekin störf hér á landi geri það áfram með svipuðum hætti og hingað til og sjái jafnframt

til þess að settum skilyrðum samkvæmt frv. sé fullnægt. Það er því ekki gert ráð fyrir að komið verði á fót nýjum stofnunum til að sjá um þessi mál.
    Í fyrri mgr. 4. gr. felst heimild til hlutaðeigandi ráðherra til þess að veita undanþágu með reglugerð frá lögum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini að viðurkenningu eða skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda. Slíkt ákvæði getur verið nauðsynlegt vegna skuldbindinga sem felast í tilskipuninni eða samningum sem falla undir 1. gr. Í 4. gr. er einnig kveðið á um að ráðherra sem í hlut á geti sett sérstakar reglur um hæfnispróf eða viðbótarmenntun eftir því sem þörf krefur. Enn fremur er þar að finna heimild til að krefja umsækjanda um greiðslu kostnaðar vegna hæfnisprófs eða viðbótarmenntunar sem nauðsynlegt verður að veita til að unnt sé að veita umbeðna viðurkenningu.
    Í 1. mgr. 5. gr. er lagt til að menntmrn. sjái um og samræmi framkvæmd þeirra tilskipana og samninga sem falla undir 1. gr. Ætla má að mat á námi og starfsþjálfun komi í flestum tilvikum til kasta menntmrn. að meira eða minna leyti í samráði við einstök fagráðuneyti og samtök á vinnumarkaði. Í síðari mgr. er því slegið föstu að þau stjórnvöld, sem tiltekin lögvernduð störf heyra undir, skuli fara með viðkomandi mál að öðru leyti.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.