Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:35:56 (1104)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að orðið starfsréttindi í heiti frv. kynni að vera villandi. Það má vel vera að svo sé og mér finnst sjálfsagt að athuga það en frv. felur í sér að leitað sé gagnkvæmrar viðurkenningar á prófskírteinum sem leiði til starfsréttinda að loknu þriggja ára námi þannig að ég sé nú ekki að þetta þurfi að valda einhverjum sérstökum misskilningi.
    4. gr. frv. varð hv. þm. til nokkurrar umhugsunar og heimildin til hlutaðeigandi ráðherra sem þar er leitað eftir til þess að veita undanþágu með reglugerð frá lögum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda. Mér sýnist satt að segja að þarna sé ekki neinn sérstakur vafi á ferðum. Það sýnist nauðsynlegt að veita ráðherra þessar heimildir eins og segir í athugasemdum við 4. gr. frv.:
    ,,Að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er felast í tilskipunum og samningum sem falla undir 1. gr. er lagt til í 1. mgr. 4. gr. að ráðherra sem í hlut á geti með reglugerð veitt undanþágu frá lögum sem gera íslenskt ríkisfang eða íslenskt prófskírteini eða viðurkenningu að skilyrði fyrir ráðningu í starf eða veitingu starfsréttinda. Með 3. mgr. 10. gr. norræna samningsins frá 1990 er ákveðið að tilteknar æðri stöður og stöður er varða þjóðaröryggi megi ætla ríkisborgurunum einum. Að því er varðar tilskipun 89/48/EBE þá tekur hún aðeins til viðurkenningar á prófskírteinum en um ráðningu í opinber störf fer eftir 4. mgr 28. gr. samnings um Evrópskt efnahagssvæði.``
    Ég verð nú að viðurkenna að ég hafði ekki séð þessa umsögn frá Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga þar sem bent er á nauðsyn þess að bæta við upptalninguna öðrum þeim skólum sem bjóða nám á þessari braut og mér finnst sjálfsagt að athuga það hvort nauðsynlegt er, ef unnt er, að bæta inn í þessa upptalningu til þess að tekin verði af öll tvímæli um að þeir sem þaðan hafa lokið námi hafi hliðstæð réttindi eða hliðstæða möguleika.
    Hv. 10. þm. Reykv. taldi mörg óljós atriði í frv. og til hvaða starfsstétta málið tekur. Ég segi enn og aftur að mér finnst sjálfsagt að hv. menntmn. taki þetta til mjög rækilegrar athugunar og hvort þörf er á að gera þarna einhver ákvæði skýrari heldur en þau kunni að vera.
    Ég veit um þessar vangaveltur um æðra skólastig, hvað það þýði og hvort það sé ótvíræður réttur okkar að skilgreina það atriði. Ég fékk fyrir nokkru bréf frá Alþýðusambandi Íslands þar sem það veltir þeirri spurningu upp hvort það sé ótvírætt á verksviði okkar að skilgreina þetta. Alþýðusambandið telur sem sagt hæpið að við getum skilgreint hugtakið ,,æðra skólastig`` eins og okkur hentar. En á samningafundum um þetta mál með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins þá er mér kunnugt um að það var spurt alveg sérstaklega um þetta atriði og svarið var mjög afdráttarlaust að það væri í verkahring hvers lands fyrir sig að skilgreina hugtakið. Skilgreining á hugtakinu ,,æðra skólastig`` sem kemur fram í greinargerð með frv. er sem sagt í samræmi við þá túlkun hugtaksins sem aðrar þjóðir hafa notað í þessu samhengi eða í því samhengi sem hérna um ræðir, þ.e. þriggja ára nám eða starfsþjálfun á háskólastigi.
    Eins og ég tók fram varðandi fskj. 3 sem ég nefndi í minni framsöguræðu og hefur líka verið gert hér nokkuð að umtalsefni, þá er unnið að því að fullgera þennan lista. Þetta er bráðabirgðalisti og ég vona að hann geti þá verið lagður fyrir nefndina.
    Varðandi spurninguna um það hvaða kröfur yrðu gerðar til framhaldsskólakennara sem kynnu að sækjast eftir starfi erlendra borgara verð ég nú að segja alveg eins og er að ég á afskaplega erfitt með að hugsa mér það að framhaldsskólakennarar kenni hér á einhverjum framandi tungum. Ég bendi hins vegar á að það hljóti að fara nokkuð eftir greinum hvers er krafist. Ég sagði hér áðan að að sjálfsögðu yrði krafist íslenskukunnáttu hjá þeim sem vilja fá réttindi sem grunnskólakennarar. Ég ætla ekki að fullyrða um það að slíkt yrði gert að ófrávíkjanlegu skilyrði varðandi framhaldsskólakennara í hvaða grein sem er. En ég ítreka líka það sem ég sagði að það væri á valdi þess sem atvinnuna veitir að samþykkja eða hafna umsókn um starfið, hver sem starfréttindin kunni að vera sem viðkomandi hefur aflað sér.
    Ég skildi það svo að ráðuneytið hefði þegar svarað hv. þm. einhverjum spurningum sem beint hefur verið til ráðuneytisins og ég mun beita mér fyrir því að ráðuneytið leggi þau gögn á borðið til hv. nefndar sem það kann að hafa undir höndum.