Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 13:38:38 (1115)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur. Frv. þetta er hið fyrsta af fjórum en áformað er að gera breytingar á fernum lögum í landbrn. vegna gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í athugasemdum með lagafrv. er getið þeirra tilskipana Evrópubandalagsins sem fjalla um þá vöruflokka sem lögin ná til. Er þar í fyrsta lagi vísað til viðauka I, kafla II um fóður, kafla III um sáðvöru og plöntur, og svo viðauka II, kafla XIV um tilbúinn áburð.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að fellt verði niður heimildarákvæði í 6. gr. gildandi laga. Þetta heimildarákvæði um bann eða takmörkun á innflutningi til verndar íslenskri framleiðslu fær ekki staðist efnisreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Síðari málsl. 6. gr. gildandi laga verður því að falla brott.
    Í 2. gr. frv. eru felld úr gildi heimildarákvæði sem eftirlitsdeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur skv. 7. gr. gildandi laga. Lagt er til að þær forsendur sem settar verða fyrir framleiðslu og innflutningi markist í reglugerð. Sú breyting sem hér um ræðir tekur einnig mið af reglum um Staðlaráð Íslands.
    Við sýnatöku hefur hér á landi verið fylgt alþjóðlegum reglum en með ákvæði þessu er aðeins verið að leggja til lögfestingu þeirra reglna. Samkvæmt framansögu er lagt til í 4. gr. frv. að 15. gr. gildandi laga falli brott. Þá eru í 5. gr. frv. lagðar til þær breytingar á ákvæðum 13., 16.--20. og 22. gr. laganna sem opna eigi möguleika á að aðrir en opinberir aðilar geti annast mælingar á þeim gæðaþáttum vöru sem krafist er hverju sinni. Þetta er mikilvæg breyting vegna þess að hröð tækniþróun hefur gefið möguleika á auknu öryggi í allri framleiðslustýringu. Við það breytist eðli hins opinbera eftirlitsþáttar í átt til mótunar á þeim ytri ramma umhverfis- og heilbrigðisþátta sem þjóðfélagið á hverjum tíma vill setja framleiðslunni. Dæmi um þetta er t.d. að þau hráefni sem notuð hafa verið úr ríki náttúrunnar til áburðarframleiðslu eru mismenguð óæskilegum fylgiefnum eins og þungmálmum. Með þeirri ríkiseinokun sem ríkt hefur hér á landi á framleiðslu og dreifingu áburðar hefur stjórn Áburðarverksmiðjunnar getað valið hreinna og þá til skemmri tíma litið dýrara hráefni. Þannig er kadmíum --- Cd í skammstöfun, og vitaskuld stórt C fyrir þá sem eru vel að sér í þessu og skilja slíkar skammstafanir --- í íslenskri áburðarframleiðslu með því lægsta sem gerist. Með tilkomu frjálsari markaðsafla þarf að setja svona þáttum skýrari mörk í reglugerðum.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. en mælist til þess að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. landbn.