Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 13:41:46 (1116)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta tel ég að það væri æskilegt að hæstv. landbrh. upplýsti okkur frekar um stóra C-ið, hvar hann vildi staðsetja það í lotukerfinu og aðrar slíkar nauðsynlegar upplýsingar. En það sem ég ætlaði að koma fyrst og fremst inn á varðandi þetta frv. er að ég vildi varpa þeirri spurningu til landbrh. hvort þetta geti þýtt það að okkur verði settur stóllinn fyrir dyrnar varðandi vernd framleiðslu okkar gagnvart óæskilegum aðskotahlutum. Svo ég reyni að skýra mál mitt nánar: Getur þetta á nokkurn hátt komið í veg fyrir það ef við Íslendingar vildum þróa búvöruframleiðslu okkar í þá veru að við getum boðið og tryggt ómengaða framleiðslu?
    Við vitum það, þó að það hafi ekki verið mælt sérstaklega, að við erum nánast laus við ákveðna þætti í framleiðslu okkar, til að mynda notkun hormóna sem við vitum að er beitt í verulegum mæli erlendis og m.a. í því formi að það er selt með fóðri. Þetta vildi ég fá skýrt fram hér við þessa 1. umr. áður en málið verður tekið til skoðunar í nefnd þar sem ég sit og mun því geta fylgt málinu eftir þar.
    Í öðru lagi það sem ráðherra nefndi varðandi áburðarframleiðsluna að vegna þess að hér er eitt fyrirtæki og einokun á sölu hefðu menn getað tryggt hér ákveðin gæði í áburðarframleiðslu með tilliti til umhverfisverndar. Hvað þýðir þetta frv. gagnvart því ef við stöndum frammi fyrir innflutningi á áburði? Verða þá ekki eins ströng skilyrði? Verðum við þá hugsanlega með áburð hér sem uppfyllir ekki þau gæðaskilyrði sem íslenskur áburður hefur í dag? Ég spyr að þessu vegna þess að eitt af þeim atriðum sem fram er sett þegar rætt er um umhverfisvæna búvöruframleiðslu er áburðarnotkunin og þá væntanlega bæði magnið og þá eins aðskotaefni sem í áburðinum eru.
    Virðulegi forseti. Þetta eru þau atriði sem ég hefði viljað fá upplýsingar um og skýringar á hér við 1. umr. málsins.