Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 13:45:26 (1117)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar til 1. umr. byrjar eins og mörg önnur frumvörp sem við fáum að sjá hér þessa dagana í tengslum við hið fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæði. Þar segir: ,,Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð . . .  `` og, með leyfi forseta, einnig í 3. gr.: ,,Um framkvæmd sýnatöku skulu sett nánari ákvæði í reglugerð.`` Þó er nú ekki sagt að ráðherra skuli setja þá reglugerð. Þetta verður eitt reglugerðarfár sem við fáum að sjá í framhaldi af þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem við ræðum hér og ég vil benda á það í upphafi.
    Í 3. gr. er vitnað til 8. gr. laga nr. 53/1978 en sú grein er þannig nú:
    ,,ED [þ.e. eftirlitsdeild] Rala skal taka sýni til rannsókna . . .  `` Þetta er um Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Það virðist því samkvæmt þessari 3. gr. eiga að taka af Rannsóknastofnun landbúnaðarins að vera framkvæmdaraðili fyrir sýnatökur.
    Ég ætla að víkja aftur að 1. gr., ég tók hana ekki áðan. Þar er sagt að síðari málsl. 6. gr. skuli falla brott. Sá liður hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Einnig getur landbúnaðarráðuneytið bannað eða takmarkað innflutning á eftirlitsskyldum vörum til verndunar íslenskrar framleiðslu.``
    Það á sem sagt að fella það brott að landbrn. geti bannað eða takmarkað að einhverju leyti innflutning á eftirlitsskyldum vörum til verndunar íslenskri framleiðslu.
    Í 5. gr. er rætt um eftirlitsaðila. Það kemur hvorki fram þar né í athugasemdum með greininni hver á að vera þessi eftirlitsaðili þannig að ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hver sé fyrirhugaður eftirlitsaðili í stað Rala.
    Sá ræðumaður sem hér var á undan mér ræddi nokkuð um Áburðarverksmiðjuna og ráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum áður að líklega muni framleiðsla í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi leggjast af vegna þess að hún sé ekki samkeppnisfær í verði við innfluttan áburð. Það kom jafnframt fram að sá áburður sem við framleiðum hér sé trúlega ómengaðri og betri framleiðsla þótt hann sé jafnframt dýrari. Ég vil því spyrja: Getum við átt von á því að við fáum yfir okkur meira af áburði sem notaður er erlendis til framleiðslu á búvörum sem hefur það í för með sér að búvörur, t.d. kjöt, eru mjög mengaðar af alls kyns hormónum? Það er mikið rætt um þetta erlendis, hvernig landbúnaðarafurðir eru að verða. Nú á tímum þegar menn ræða mjög mikið um að reyna að takmarka mengun og borða holla og góða fæðu í stað mengaðrar þá tel ég að við séum að fara út á hættulega braut ef á að leggja af þá áburðarframleiðslu sem verið hefur hér á landi og sem alveg tvímælalaust er miklu heilnæmari heldur en mörg erlend framleiðsla.
    En ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Ég vildi beina þessum spurningum inn í landbn. og til ráðherra og vænti þess að þetta verði rætt frekar þegar það kemur þar til umræðu.