Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 13:51:07 (1118)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið þá fjallar 1. gr. frv. um að fella niður síðari málsl. 6. gr. laga um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum o.fl. þar sem verið er að fella út einn af þeim þröskuldum sem hafa verið fyrir innflutningi búvara í samkeppni við innlenda framleiðslu.
    Ég vil spyrja hæstv. landbrh. að því hvort gerð hafi verið athugun á því hvaða áhrif þessi niðurfelling hefur fyrir íslenskan landbúnað. Hvort það muni hafa í för með sér aukna samkeppni fyrir íslenska fóðurframleiðslu. Íslensk fóðurframleiðsla er, eins og allir vita, fyrst og fremst gras og hey en á síðustu árum hefur einnig verið í vaxandi mæli framleiðsla á byggi og þrátt fyrir erfitt tíðarfar í sumar þá tókst þó hjá einstaka bónda að ná furðu góðri uppskeru. Mun þetta hafa áhrif á samkeppnisstöðu þessarar fóðurframleiðslu íslenskra bænda sem við vitum að sjálfsögðu að er miklu öruggari hvað hollustu varðar heldur en það innflutta fóður sem hér er á boðstólnum og við vitum ekki við hvaða skilyrði er framleitt og hversu gamalt það er?
    Þegar vikið er að þeirri hættu á samdrætti í störfum í íslenskum landbúnaði af þessari ástæðu þá finnst mér óhjákvæmilegt að víkja aðeins að miklu stærra dæmi, þ.e. heildarafleiðingum af EES-samningnum á atvinnu í íslenskum landbúnaði. Það er mér sérstaklega ofarlega í huga vegna þess að í síðustu viku var ég á svonefndri spástefnu ásamt öðrum hv. þm. Suðurlands sem haldin var austur í Aratungu í Biskupstungum fyrir uppsveitir Árnessýslu. Þessi spástefna var undir stjórn Ingjalds Hannibalssonar, forstjóra Útflutningsráðs. Þar ræddu menn að sjálfsögðu atvinnuhorfur og þar komu fram athyglisverðar og uggvænlegar tölur sem nú blasa við þeim blómlegu sveitum og hvað þá heldur annars staðar á landinu eftir að EES-samningur verður samþykktur. En þær tölur, sem þar voru nefndar, voru að eftir þann samdrátt sem nú stendur yfir í íslenskum landbúnaði og samþykkt EES-samningsins þá mundi þurfa að finna 150--240 ný störf til að koma á móti þeim sem niður falla, aðeins í þessum sex sveitarfélögum.
    Ég held því að það sé alveg óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. landbrh.: Hefur hann gert áætlun um það hvernig þessar tölur munu líta út fyrir landið í heild, fyrir sveitirnar og einnig fyrir þéttbýli sem svo mjög er háð framleiðslu og atvinnu í sveitum?
    Það er nokkurt hlaup í þessum tölum því þar er að sjálfsögðu nokkur óvissa á ferðum. Í máli fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, sem var á þessari spástefnu, sagði svo, með leyfi forseta, um EES: ,,Enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi EES og leyfi til innflutnings á ákveðnum unnum mjólkurvörum.``
    Sú tala sem var einna afdráttarlausust í þessari spá var talan um fækkun starfa í garðyrkju. Þar var um að ræða 50 ársverk. Garðyrkjubændur hafa vakið athygli á þeirri hættu sem þeim stafar af EES-samningnum og hafa sent frá sér greinargerð um þetta efni og vil ég leyfa mér að lesa upphaf kafla sem ber yfirskriftina ,,Óbein áhrif aukins innflutnings á garðyrkjuna í landinu``. En þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Íslenskur markaður fyrir blóm, grænmeti og trjáplöntur er þröngur sökum fólksfæðar og fjarlægðar landsins frá meginlandi Evrópu. Aðlögun að heimamarkaði hefur átt sér stað í áratugi. Útflutningsmöguleikar eru nánast engir og mjög hart er barist nú þegar á innanlandsmarkaði. Sérhæfing er erfið sökum fólksfæðar en þó möguleg, t.d. í rósum, gúrkum, tómötum, papriku og sveppum. Ef ósérhæfð ræktun leggst af hérlendis minnkar markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu að sama skapi. Fjárfestingar í garðyrkju, einkum gróðurhús, er ekki unnt að nýta til annars. Aukinn innflutningur getur því ef til skamms tíma er litið sett skuldugustu stöðvarnar á hausinn og ef til langs tíma er litið gert eldri garðyrkjustöðvar og stöðvar á jaðarsvæðum verðlausar.
    Árið 1990 var framleiðsluverðmæti grænmetis (kartöflur undanskildar) og blóma tæpur 1 milljarður króna. Heilsársstörf voru um 350, auk 200 sumarstarfa. Ætla má að hverju starfi í framleiðslu tengist tvö ársstörf í þjónustu eða um 700 störf.
    Það er garðyrkjubændum mikið alvörumál hvernig staðið verður að eftirliti með innflutningi, bæði hvað varðar heilbrigðiseftirlit og vöruskoðun. Í náttúru Íslands eru mjög fá innlend meindýr sem hafa áhrif á garðyrkjuafurðir og þau meindýr og sjúkdómar sem nú herja á í garðyrkju hafa öll komið inn í landið sökum ónógs heilbrigðiseftirlits.
    Einnig má benda á að nú opnast fyrir innflutning á tollfrjálsum garðyrkjuafurðum og þá er mikilvægt að vöruskoðun sé framkvæmd til að ekki séu fluttar inn tegundir sem ekki er frjáls innflutningur á. Einnig veldur það áhyggjum að erfitt virðist vera að fylgjast með uppruna blóma og grænmetis. Afurðir upprunnar innan EES verða tollfrjálsar en afurðir annars staðar frá bera 30% toll. Nú er það svo að t.d. Hollendingar flytja inn mikið magn af blómum frá svæðum utan EES og mjög óljóst er hvernig komast megi að uppruna þeirra þegar varan er seld á markaði í Hollandi.``
    Í kafla sem ber yfirskriftina ,,Bein áhrif á einstakar greinar garðyrkjunnar`` segir svo um bein áhrif EES-samninganna á einstakar greinar garðyrkjunnar, með leyfi forseta:
    ,,Blómaframleiðendur eru sammála um að áhrifin geti orðið veruleg.
    1. Íslenskar nellikur verða ekki samkeppnisfærar á þeim tíma, sem frjáls innflutningur verður, án tolla og lýsing á nellikum mun hverfa.
    2. Brodiaea getur vegna útlits og eiginleika haft áhrif á framleiðslu og sölu á fresíu. Ræktun á fresíum hefur aukist mjög á síðustu árum og lýsing þeirra einnig.
    3. Arnthurium og ornithogalium eru ræktuð hérlendis og innflutningur getur haft neikvæð áhrif.
    4. Aukin hætta er á innflutningi á tilbúnum búntum þar sem hráefnið væri tollalaus vara. Slíkur innflutningur getur haft áhrif á verðlagningu blóma almennt.
    5. Einnig er erfitt að meta hvaða áhrif frjáls og tollalaus innflutningur á nellikum, brodiaeu, arnthurium, ornithogalium og strelitziu hefur á sölu annarra afskorinna blóma, bæði sökum verðs og magns, en ljóst er að áhrifin verða að öllum líkindum mjög veruleg.
    Ræktunartímabil grænmetis er styttra hérlendis en sunnar í Evrópu. Frjáls og tollalaus innflutningur yfir vetrarmánuðina á tómötum, papriku og salati mun tvímælalaust hafa áhrif á verðlagningu íslensks grænmetis. Fyrsta verð á vori mun lækka enn frekar vegna þessa innflutnings því erfiðara verður að koma með vöru á hærra verði inn á markaðinn þegar í gangi hefur verið lágt verð yfir vetrarmánuðina.``
    Við minnumst þess sjálfsagt öll að þegar byrjað var að ræða um EES-samninginn var sagt að hann hefði engin áhrif á landbúnað því hann næði ekki til hans. Nú er það ljóst að sá samningur, sem hæstv. utanrrh. hefur undirritað, er allt annars eðlis. Hér hef ég aðeins vakið athygli á örfáum atriðum hvað snertir eina grein landbúnaðarins og þar kemur skýrt fram að áhrifin eru mikil.
    Ég vil því ítreka spurningar mínar til hæstv. landbrh.: Hefur hann látið gera úttekt á því í fyrsta lagi hvaða áhrif þetta frv. hefur á stöðu íslensks landbúnaðar, hvort það breytir einhverju um samkeppnisstöðu íslenskrar fóðurframleiðslu, og í öðru lagi hvernig horfur eru nú um atvinnumöguleika í landinu, í fyrsta lagi vegna þess samdráttar sem þegar blasir við vegna aðlögunar framleiðslunnar að markaðsaðstöðu og í öðru lagi eftir að EES-samningur hefði verið fullgiltur. Og þá einnig hvaða áhrif slíkur samdráttur í sveitum hefði í þéttbýli.
    Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur hv. alþm. að fá skýr svör við þessu til að við getum metið áhrif þeirra samninga sem okkur er ætlað að samþykkja. Því varla er það ætlun hæstv. landbrh. að við eigum bara að loka augunum og láta skeika algjörlega að sköpuðu með það hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt þjóðfélag að þessu leyti.