Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:26:58 (1122)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fer að álíta að sá hæstv. ráðherra, sem hér ræddi áðan, skilji bara alls ekki mælt mál og ég veit nú orðið ekki hvernig á að koma því fram til þess að fá svar við spurningum og til þess að ekki sé snúið út úr orðum manna.
    Ég sagði akkúrat ekkert um það að ferlið sem við erum að ganga í gegnum um hið Evrópska efnahagssvæði snerti ekkert íslenskan landbúnað. Það kom ekki orð fram um það í mínu máli. Ég sagði hins vegar það eitt að samningurinn sem slíkur, heildarsamningurinn milli EFTA og EB, tekur ekki til landbúnaðar. Það sem viðkemur landbúnaðinum felst í sérsamningum, tvíhliða samningum, ýmist milli EFTA-ríkjanna sem heildar og EB eða einstakra landa, ýmist að kröfu EB eða EFTA-ríkja. Allt þetta ferli kemur vissulega við íslenskan landbúnað. Auk þess sem ákvæði um staðfesturétt til atvinnurekstrar og annað slíkt kemur náttúrlega þarna inn á. Þetta vil ég bara að hér komi fram.