Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:37:00 (1127)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana o.fl. sem er á þskj. 42. Frv. þessa efnis var flutt á 113. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Það er endurflutt með örfáum breytingum.
    Frv. er að þessu sinni flutt í tengslum við EES-samninginn vegna ákvæða í EFTA-samningunum um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA og dómstóls EFTA, en samningur sá var gerður í Óportó í Portúgal í maí 1992.
    Með þessu frv. er gerð tillaga um almennan lagaramma um skuldbindingar Íslands sem lúta að friðhelgi alþjóðastofnana hér á landi og einstaklinga sem þeim tengjast eða við þær starfa. Að þessu leyti er frv. hliðstætt lögum nr. 16/1971 sem lögfesta Vínarsamninginn um stjórnmálasamband og lögum nr. 4/1978 sem lögfesta Vínarsamninginn um ræðissamband. Þeir samningar kveða á um friðhelgi sendiráða, ræðisskrifstofa og starfsmanna þeirra hér á landi. Eins og um var getið þegar þetta frv. var flutt í fyrra, þá er í því að finna ákvæði sem snúa að þeim fjölmörgu ákvæðum í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og sem leggja aðildarríkjunum á herðar skyldur til að tryggja alþjóðastofnunum réttarstöðu í aðildarríkjunum, svo og friðhelgi, forréttindi og undanþágur handa þeim, starfsliði þeirra og erindrekum.
    Hér á landi hafa reyndar verið sett nokkur lög sem fjalla um þetta efni. Sum þessara laga fjalla um réttindi alveg almenns eðlis, svo sem lög nr. 13/1948, um réttindi og skyldur Sameinuðu þjóðanna. Önnur lög varða réttindi einstakra stofnana og má þar nefna lög nr. 26/1976, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans.
    Í fylgiskjali 1 með frv. er skrá um ákvæði um friðhelgi og forréttindi í samningum sem Ísland er aðili að og vísa ég til þeirrar skrár um þetta efni. Þá vil ég einnig benda á að í fylgiskjali 2 er sýnishorn slíkra ákvæða úr nýjasta samningnum í skránni sem er um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og gefur góða hugmynd um efnissvið ákvæða af þessu tagi.
    Ég vil taka það fram að ákvæði þessara samninga hafa yfirleitt fyrst og fremst gildi gagnvart þeim ríkjum þar sem stofnanirnar eru staðsettar eða hafa starfsskrifstofur. Því mun lítt eða ekki reyna á þessi ákvæði í reynd á Íslandi, enda eru stofnanirnar yfirleitt ekki með starfsemi hér eða útibú á sínum vegum. Það þykir þó öruggara og eðlilegra að hafa lagagrundvöllinn hér á landi í lagi, enda er það skylt samkvæmt samningunum. En ég tel að sú lagasetning sem hér er gerð tillaga um færi þessi mál í einfaldari og skilvirkari farveg. Þar er farið að dæmi ýmissa annarra þjóða, þar á meðal Norðurlandaþjóða, og setja grundvöll í almennum lögum um þessi skyldubundnu réttindi.
    Verði þetta frv., sem ég nú mæli fyrir, að lögum verður einnig í krafti þeirra laga unnt að gerast aðili að samningum um forréttindi og friðhelgi sérstofnana Sameinuðu þjóðanna og samningi um réttarstöðu dómara Mannréttindadómstóls Evrópu, nefndarmanna í mannréttindanefnd Evrópu og þeirra aðila sem taka þátt í málflutningi fyrir þessum stofnunum, þ.e. mannréttindanefndinni og Mannréttindadómstóli Evrópu.
    Frú forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þetta frv. verði að lokinni þessari umræðu sent til 2. umr. og hv. utanrmn.