Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:42:03 (1128)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér ætla ég ekki að gera athugasemd við það þótt hæstv. viðskrh. mæli fyrir þessu frv. hér en það er þó nokkuð óvanalegt að annar ráðherra en sá sem flytur frv. mæli fyrir því í þinginu. Ég vona að þetta verði ekki tekið upp sem regla. Sé ekki í sjálfu sér neina ástæðu fyrir því að brýnt hafi verið að mæla fyrir þessu frv. í dag. Það er ekkert sem kallaði á það að mæla fyrir frv. í dag. Þess vegna vil ég mælast til þess að þetta verði alger undantekning og ríkisstjórnin fari ekki að beita þeirri venju að láta aðra ráðherra en þá sem bera ábyrgð á frumvörpunum mæla fyrir þeim í þinginu.
    Hins vegar vil ég gera athugasemd við þetta frv. og þá aðferð sem í því felst. Frv. er í raun og veru mjög einfalt. Það er bara þrjár greinar. Í 1. gr. er að finna almenna lýsingu um það hverjir eigi að njóta friðhelgis og forréttinda. Þá er í 2. gr. sagt að hlutaðeigandi ráðherra geti sett nánari reglur um framkvæmd þessara laga. Og síðan er í 3. gr. annaðhvort í heild eða að hluta afnumin átta gildandi lög. Hér er stigið enn eitt skrefið í þá átt að færa löggjafarvaldið frá Alþingi til embættismanna ráðuneytanna og viðkomandi ráðherra. Það sem áður var ákveðið af Alþingi með lögum skal nú ákveðið af embættismönnum og ráðherra í ráðuneytum. Þessi þróun er í algerri mótsögn við allt það sem sagt hefur verið hér á Alþingi á undanförnum árum um nauðsyn þess að efla löggjafarvaldið og draga úr sívaxandi tilhneigingu framkvæmdarvaldsins til að taka til sín æ meira vald.
    Ég veit ekki hvort það þýðir eitthvað að spyrja hæstv. viðskrh. í umræðunni vegna þess að hann hefur auðvitað ekki samið þetta frv. og ekki verið inni í umræðunni um það. Þess vegna er auðvitað mjög bagalegt að hæstv. utanrrh. sé ekki mættur hér. En þó vil ég bera upp þessa spurningu: Hvers vegna gat utanrrn. ekki klætt í venjulegan lagabúning þau ákvæði úr þessum átta lagabálkum sem hér er vitnað til og nauðsynlegt er talið af hálfu ráðuneytisins að gildi áfram? Eða er það virkilega stefnumótandi ákvörðun að fara inn á þá braut að það sem áður var í lögum skuli nú verða algjörlega á valdi framkvæmdarvaldsins með reglugerð. Það er leið sem ég vil mótmæla. Mér finnst ekki koma til greina að Alþingi afgreiði þetta frv. með þeim hætti sem það er lagt fyrir. Var það tímaskortur í utanrrn. sem olli því að ráðuneytið hirti ekki um að leggja vinnu í það að klæða þetta frv. í venjulegan búning? Það er orðið nokkuð skemmtilegt þegar embættismenn utanrrn. eru farnir að hlaupa inn í þingsalinn til þess að gefa starfandi ráðherra ,,ordrur`` um það hvað þeir eigi að segja. Er það kannski tímanna tákn að embættismennirnir séu komnir bara alveg inn í þingsalinn? (Gripið fram í.) Nei, hann er það nú ekki. Hann er einn af ágætum starfsmönnum utanrrn. En þetta er auðvitað hálfneyðarlegt, hæstv. ráðherra, allt saman. Bæði frv. sjálft og síðan sá máti við að fylgja því fram í þingsalnum. Utanrrh. mætir ekki, viðskrh. flytur frv. fyrir hann og embættismaður ráðuneytisins hefur a.m.k. í tvígang hlaupið inn í þingsalinn til að hvísla einhverjum leiðbeiningum að ráðherranum um það hvað hann eigi að segja.
    En ég var að spyrja að því hvort það væri vegna tímaskorts eða hirðuleysis að utanrrn. kysi að fara þessa leið eða hvort þetta sé stefnumótandi ákvörðun. Stefnumótandi ákvörðun sem felst í því að flytja löggjafarvald yfir í ráðuneytið með því að veita algjörlega opna heimild til ráðherrans að meðhöndla allt það sem áður var tilgreint í átta lagabálkum með reglugerð þannig að Alþingi hafi enga möguleika til þess að fjalla um það. Það sé algjörlega á valdi framkvæmdarvaldsins eins.
    Það er svo athyglisvert að á bls. 3 í greinargerðinni stendur:
    ,,Verði frv. þetta að lögum verður unnt að uppfylla skuldbindingar í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls frá 2. maí 1992, sbr. 44. gr. samningsins og bókanir 6 og 7 við hann, um gerhæfi, forréttindi og friðhelgi eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins. Einnig verður unnt að gerast aðili að samningi frá 21. nóv. 1947 um forréttindi og friðhelgi sérstofnana Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur er ætlunin að Ísland fullgildi fjórðu og fimmtu bókanir við samning frá 2. sept. 1949 um réttindi og griðhelgi Evrópuráðsins. Þær fjalla um réttarstöðu dómara Mannréttindadómstóls Evrópu og nefndarmanna mannréttindanefndar Evrópu. Einnig verður unnt að fullgilda Evrópusamning frá 6. maí 1969 um aðila sem taka þátt í málflutningi fyrir mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóli Evrópu.``

    Verði frv. þetta að lögum var upphafið að þessari málsgrein og ítarlegri tilvitnun í margvíslega alþjóðasamninga. Það er ekkert í frv. um þessa alþjóðasamninga og þessar stofnanir EFTA og Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins og Mannréttindadómstólsins í sjálfu lagafrv. Merkingin hlýtur þess vegna að vera sú að ráðherrann ætli sér í krafti þessarar opnu reglugerðarheimildar að gera þetta allt saman. En það er auðvitað ekki eðlileg aðferð við lagasetningu.
    Ég vil þess vegna mælast til þess við utanrrn. að það endurskoði þetta frv. og komi með nýja útgáfu af því til utanrmn. þar sem þau ákvæði sem máli skipta eru klædd í venjulegan búning frv. svo að Alþingi geti gert það að lögum. Þó ég telji í sjálfu sér ekki ástæðu til að mæla gegn ýmsu af því sem ætlað er að gera hér varðandi friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana þá getur verið að maður neyðist á grundvelli viðhorfa manns til löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að greiða atkvæði gegn frv. af þessu tagi vegna þess að ekki sé hægt að sætta sig við það að veita embættismönnum ráðuneytanna og ráðherrunum svo gjörsamlega opna reglugerðarheimild eins og felst í þessu frv. Og það er mjög vont að þingið sé sett í þá stöðu að geta ekki tekið efnislega afstöðu til málsins út frá því sem það fjallar um heldur þurfi hugsanlega ákveðnir þingmenn að vera á móti því af þeirri prinsippástæðu að geta ekki afgreitt mikilvægan efnisflokk með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Ég endurtek þess vegna þau ummæli mín til ráðuneytisins að frv. verði endurskoðað, klætt í búning venjulegs frv. og við fáum það þannig inn í utanrmn. þannig að nefndin geti flutt þær breytingar sem þarf tvímælalaust að gera á frv.