Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:50:22 (1129)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Með örfáum orðum vil ég gera nokkrar athugasemdir við frv. Ég vil fyrst taka það fram að ég tel ekki óskynsamlegt að setja sérstakan lagaramma um réttindi og væntanlega skyldur starfsmanna alþjóðastofnana sem við erum aðilar að. Hins vegar finnst mér ýmislegt við frv. að athuga. Í 1. mgr. frv. er tekið fram að um sé að ræða alþjóðastofnanir eða alþjóðasamninga sem öðlast hafa gildi að því er Ísland varðar. Við þetta hef ég ekkert að athuga. En síðan segir í næstu málsgrein: ,,Eftirtaldir skulu einnig njóta friðhelgi og forréttinda samkvæmt samningi þessum hér á landi.`` Síðan eru þeir taldir upp í fimm liðum. Það fyrsta er starfslið alþjóðastofnana og þar er ekkert um það að Ísland þurfi að vera aðili að slíkum stofnunum. Þetta vekur undrun mína. Þarna virðist vera opnað fyrir slík sérréttindi fyrir alla hvort sem við Íslendingar erum þar aðilar að eða ekki. Ég tel með öðrum orðum að þetta geti aðeins gilt fyrir þær stofnanir og þá samninga sem hafa hlotið fullnustu, fullt gildi, með staðfestingu Alþingis. Ég spyr einnig: Er það ekki ætlunin með frv. og hlýtur ekki að þurfa a.m.k. að lagfæra þetta sem ég hef nú vísað hér til?
    Það er dálítið athyglisvert þegar ég ber frv. saman við frv. frá því í fyrra að þar er allt öðruvísi til orða tekið. Þar er 1. mgr. 1. gr., sem í raun fjallar um allt það sem 1. gr. hér fjallar um, allt öðruvísi orðuð. Þar er ekki þessi upptalning og þar ná orðin ,,að því er Ísland varðar`` til allrar greinarinnar. Það er því að mínu mati veruleg efnisbreyting á þessu hérna sem mér sýnist satt að segja orka mjög tvímælis. Ég hlýt einnig að taka undir það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að æði þykir mér 2. gr. opin, að hlutaðeigandi ráðherra geti sett nánari reglur um framkvæmd laganna. Ég held að þarna sé gengið óvenju langt.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hefði mátt telja upp í þessum lögum hvers konar réttindi --- ég sé að hæstv. ráðherra er að leita ráða hjá starfsmönnum utanrrn. sem von er --- ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að það er vitanlega algerlega ófært að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera hér. Hvað þrýstir svo á að þessu þurfi að hraða til nefndar? Ég hlýt að gagnrýna það harðlega og tek undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég hefði talið eðlilegra að telja upp í lögum hvaða sérréttinda og forréttinda þessir aðilar skuli njóta, það verði tekið fram í lögunum. Hér eru hins vegar birt í fylgiskjali þau forréttindi sem starfsmenn og bankinn sem slíkur, þ.e. Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu, skuli njóta hjá aðildarríkjum. Kannski er það það sem hefur þrýst á hæstv. viðskrh. að mæla fyrir þessu máli því ég veit að hann ber þennan banka mjög fyrir brjósti. Hann hefur kannski ekki getað beðið eftir því að hæstv. utanrrh. fyndi tíma til að mæla fyrir málinu. Þetta var nú innskot.
    En hér eru þessi réttindi sem hæstv. viðskrh. hefur undirritað fyrir hönd Íslands í samningi um þennan banka lögð fram sem sýnishorn. Að vísu er það líka athyglisvert, svo ég skjóti því hér að, að í frv. frá því í fyrra er tekið fram um þetta sýnishorn, fylgiskjal II, með leyfi forseta: Frv. þetta á einkum rætur sínar að rekja til skuldbindinga Íslands samkvæmt þessum samningi um bankann. Það styður þá grunsemd mína að það hafi verið hæstv. viðskrh. sem þrýsti á að fá þetta lögfest í almennum lögum.
    Ég tel í fyrsta lagi að það hafi ekkert legið á að mæla fyrir þessum málum, það hefði verið fróðlegt að fá miklu ítarlegri viðræður við hæstv. utanrrh. um málið.
    Í öðru lagi sýnist mér að breytingin sem á þessu hefur verið gerð hafi verið fljótfærnisleg og þarfnist skýringa eins og ég hef þegar rakið. Í 1. gr. er sumt háð því að Ísland sé orðið aðili en annað er ekki háð því, er bara gjörsamlega opið.
    Í þriðja lagi tel ég fullkomlega óviðunandi sem segir í 2. gr.: ,,Hlutaðeigandi ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.`` Reyndar má segja að þar með hafi allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar heimild til að setja nánari reglur ef viðkomandi stofnun fellur undir þann ráðherra. Þetta er dálítil nýbreytni hygg ég því í lögum um Stjórnarráð Íslands eða auglýsingu er það utanrrh. sem gerir alþjóðasamninga þó aðrir ráðherrar hafi stundum farið í heimild utanrrh. til að skrifa undir eins og hæstv. viðskrh. hefur iðulega gert. Hér hefur hvaða ráðherra sem er heimild til að setja, að því er ég fæ best séð, hvaða reglur sem hann kýs um forréttindi stofnana og starfsmanna þeirra stofnana sem svo vill til að undir hann heyra. Ég vil vara við svo opnu ákvæði. Ég held að þetta þurfi að vera miklu bundnara.
    Í fjórða lagi tel ég, eins og ég sagði áðan, miklu betur frá málum gengið að telja upp í lögum þau forréttindi sem hæstv. viðskrh. líklega telur að alþjóðastofnanir þurfi að fá og leita samþykkis Alþingis fyrir þeim almenna ramma.