Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:02:37 (1131)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Með þessari breytingu er miklu meira gert en bara það sem hæstv. viðskrh. nefndi. Ég get reyndar fallist á að eigi það eingöngu við þá samninga sem Ísland varðar, sem talið er upp í seinni hluta 1. gr., er það gott og gilt. En í frv. eins og það var sagði líka, með leyfi forseta: ,,Utanrrh. getur sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.`` En núna segir: ,,Hlutaðeigandi ráðherra getur sett reglur um framkvæmd laga þessara.`` Það gerði ég hvað harðastar athugasemdir við. Ég tel að það sé alrangt að með þessum einu lögum sem utanrrh. flytur sé unnt að veita öllum ráðherrum í ríkisstjórninni heimild til að setja þær reglur sem þeir kjósa fyrir viðkomandi stofnun. Það má vel vera að hæstv. viðskrh. vilji fá þessa heimild til sín vegna bankans, mig grunar að svo sé. En ég tel það bara alls ekki ganga upp. Þetta vald getur, að mínu mati, eingöngu verið hjá utanrrh. þegar um alþjóðastofnun er að ræða. Það er hárrétt hjá hæstv. viðskrh. að ég samþykkti fyrir mitt leyti að slíkur almennur rammi yrði settur. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar að betra væri að setja í lög um hvaða forréttindi er að ræða. Það breytir því ekki þótt ég hafi staðið að því að setja þetta frv. fram. Það má að sjálfsögðu gott bæta.