Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:04:24 (1132)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Enn á ný vil ég ítreka við hv. 7. þm. Reykn. að grunsemdir hans um að ég hafi knúið sérstaklega á um setningu laga þessara eða einstakar greinar þeirra af umhyggju fyrir tiltekinni alþjóðastofnun eru alveg ástæðulausar. Hitt er rétt að þegar um 2. gr. --- sem hér er um það hvaða ráðherrar gætu fjallað um þetta efni --- var rætt öðru sinni komu upp þau sjónarmið, einkum frá dómsmrh. og dómsmrn. um eðlilegan skilning á réttri framkvæmd þessara laga, ef að lögum verða, að það þyrfti sérstaklega að huga að samningum um skattamálefni og fjmrh. gæti átt þar hlut að máli. Einnig þykist ég vita að þeir Norðurlandasamningar, sem hér eru til umræðu, gætu átt þarna erindi. En ég tek það fram að í þessu felst alls ekki nein slík opnun. Það er fjarri öllum skynsamlegum skilningi að halda því fram að það sé tilgangurinn eða efni þessa lagafrv.