Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:07:50 (1134)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir sjálfsagt mál að sú ábending hv. 7. þm. Reykn. sem ég nefndi um það hvernig orðalag ráðherraheimildar til að setja reglur um framkvæmd þessara laga verði best fyrir komið verði könnuð. Því fer víðs fjarri að ég hafi nokkurn áhuga á því að þessi heimild verði veitt fleiri ráðherrum en þarf. Sé það nægilegt að það sé utanrrh. er það að sjálfsögðu það sem ég helst kysi. En ég hef þegar lýst í mínu fyrra svari ástæðunum fyrir því að þetta orðalag er nú sett fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Mér finnst mjög eðlilegt og sjálfsagt að utanrmn. kanni þetta orðalag vandlega.
    Ég vil líka að könnun fari fram á upptalningu fríðinda en leyfi mér að benda á að það er fjarri öllu lagi að halda því fram að með þessu frv. sé verið að veita ráðherrum heimild til að veita hvaða fríðindi sem vera skal. Það er ekki. Þeim er eingöngu veitt, og fyrst og fremst utanrrh., heimild til að setja reglur um framkvæmd þeirra fríðinda sem upp eru talin í samningum þeim sem hér um ræðir.