Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:09:08 (1135)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er illt ef hæstv. viðskrh. kýs að taka það svo illa upp þegar menn eru að óska eftir því að utanrrn. sé reiðubúið til samninga við þingið um að gera frv. ítarlegar úr garði þegar það verður afgreitt sem lög. Það er auðvitað sönnun þess hvað það er vont að annar ráðherra en sá sem ber ábyrgð á frv. skuli annast umræðuna í þinginu. Auðvitað er hæstv. viðskrh. ekki með fullt umboð til þess að veita slíkt svar hér í þinginu.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur bent á þann mun í nokkrum efnum á því frv. sem flutt var í tíð síðustu ríkisstjórnar og því frv. sem hér er flutt. Það er þó rétt að árétta það sem kemur fram í greinargerð hins fyrra frv. á bls. 3.:
    ,,Frumvarp þetta á einkum rætur sínar að rekja til skuldbindinga Íslands í 54. gr. stofnsamnings Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu . . .  `` Það kemur alveg skýrt fram í greinargerð frv. að tilefni og tilgangur þess tengist sérstaklega aðild Íslands að Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. Eins og allir vita er þeirri stofnun ekki ætlað að vera umsvifamikil í íslensku réttarfari eða íslensku þjóðfélagi eða íslensku efnahagslífi. Það er alkunna. Hins vegar hefur, með þessu frv., sem við hér erum að fjalla um, verið farið inn á þá braut að veita eftirlitsstofnun og dómstól EFTA-ríkjanna, sem eiga að hafa margvísleg afskipti af íslensku efnahagslífi, íslensku réttarfari og íslensku þjóðfélagi, þessi réttindi, sem samkvæmt fyrra frv., var eingöngu ætlað að veita alþjóðastofnunum sem alfarið starfa í öðrum löndum. Á því er auðvitað grundvallarmunur sem ég vænti að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að gera sér grein fyrir í rólegheitum.