Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:11:48 (1136)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. hlýtur að hafa verið eitthvað annars hugar þegar hann hlýddi á þær umræður og þau orðaskipti sem hér urðu áðan. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til þess að utanrrn.

hafi sem allra best samstarf við utanrmn. um vinnslu þessa frv. í nefndinni og að sjálfsögðu er rétt og eðlilegt að ræða þau sjónarmið og þær hugmyndir sem hér var hreyft af hálfu hv. 7. þm. Reykn. Það skyldi nú á annað skorta. Þess vegna vil ég andmæla því að nokkuð hafi komið fram í mínu máli sem benti til þess að þar yrði um annað að ræða en hið fyllsta samstarf. Ég gerði það hins vegar að umtalsefni hér í minni fyrri ræðu að þessir ágætu þingmenn, hinn 7. og 8. frá Reykjanesi, hefðu staðið að frv. í fyrri ríkisstjórn þegar það var flutt á 113. löggjafarþingi um meginefni málsins og aðferð, þá aðferð sem hv. 8. þm. Reykn. kýs nú að andmæla harðlega. Því ef hann lítur á aðferðafræðina þá er hún alveg óbreytt.
    Það er rétt að í grg. hins fyrra frv. var einkum vitnað til nýjasta samningsins að þessu tagi um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. Nú er hins vegar fyrst og fremst til þess vitnað --- enda frv. nú flutt sem EES-frumvarp vegna ákvæðanna í EFTA-samningunum um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem gerður var í Óportó 2. maí sl. Það er líka alveg laukrétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að það er ástæða til þess að gaumgæfa sérstaklega þær stofnanir eða þá starfsemi sem fara kynni fram á Íslandi að meira leyti samkvæmt nýgerðum samningum eða væntanlegum samningum fremur en þeim sem áður giltu. Þetta er nákvæmlega það efni sem hv. utanrmn. hlýtur að fjalla um þegar hún fjallar um þetta sjálfsagða og nauðsynlega frv. sem er til þess hugsað, eins og ég sagði, að einfalda íslenska löggjöf, að greiða fyrir löggjafarstarfseminni nákvæmlega á sama hátt og ég stend hér fyrir flutningi frv. til að greiða fyrir þingstörfum.