Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:13:57 (1137)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það að hæstv. ráðherra hefur látið það koma skýrt fram að það sé jákvætt og eðlilegt að hans dómi að utanrmn. taki þetta frv. til vandlegrar skoðunar og geri á því hugsanlegar breytingar og klæði það í þann búning sem menn geta unað við. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa talað svo skýrt um það. Það má vera að hann hafi ýjað að því hér í sínum fyrri ummælum en það var ekki svo skýrt eins og í hinni síðustu ræðu og fagna ég því.
    Nú kom það fram hjá ráðherranum að þetta frv. er flutt fyrst og fremst sem EES-frumvarp og það er alveg rétt hjá honum og á því er auðvitað verulegur munur og þeim alþjóðastofnunum öðrum sem Íslendingar hafa tengst fram að þessu, það vitum við öll hér í þingsalnum. Þess vegna er auðvitað sérstaklega brýnt að lögin sjálf kveði á um öll helstu efnisatriði en það sé ekki verið að veita ráðherrum, hvað þá heldur öllum ráðherrum, eins og gert er með 2. gr. þessa frv., opna heimild til reglugerðarsetningar. Ég varaði við því í upphafi að fara í tengslum við EES-samninginn inn á þá braut að opna fjölmörg svið í Stjórnarráðinu fyrir reglugerðarsetningu ráðherranna einna sem hafa verið þeim lokuð fram að þessu og nota EES-samninginn sem eins konar afsökun í því skyni. Ég sé enga þörf til þess að gera það og vænti þess að við getum smátt og smátt í þinginu náð samkomulagi um það að þótt EES-samningurinn verði hugsanlega afgreiddur hér á þinginu þá sé ekki í leiðinni verið að auka stórkostlega vald framkvæmdarvaldsins í íslenska stjórnkerfinu, íslenska framkvæmdarvaldsins á kostnað íslenska löggjafarvaldsins.