Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:34:44 (1145)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ekki veit ég í hvaða tilgangi ræða hv. málshefjanda var flutt hér. Vera má að það hafi verið gert sem framlag í baráttu fyrir því að brjóta niður síldarútvegsnefnd og það væru þá skilaboð sem ástæða er til að koma á framfæri við síldarverkendur, ekki síst á Austurlandi, og allt það fólk sem hefur atvinnu af því að salta síld.
    Stjórnvöld bera vissulega mikla ábyrgð en þau bera ekki ábyrgð á hruni heimskommúnismans og þau bera ekki ábyrgð á hruni Sovétríkjanna eða þeim pólitíska markaði sem vissulega var góður fyrir okkar afurðir um margra ára skeið.
    Það er mikill misskilningur hjá hv. málshefjanda að síldarútvegsnefnd hafi einkaleyfi á útflutningi saltsíldar. Um það leyfi, sem heimilt er að veita henni, hefur hún ekki sótt árum saman og þaðan af síður hefur henni verið veitt slíkt einkaleyfi. Hverjum og einum sem óskar þess að flytja út síld er leyft að flytja út og síldarútvegsnefnd hefur aðstoðað menn sem eftir því hafa leitað.
    Það er hins vegar samkvæmt eðli máls að síldarútvegsnefnd hefur sett ákveðin viðmiðunarverð og ég vildi gjarnan heyra þann síldarsaltanda sem vildi breyta frá því fyrirkomulagi eða hver er tilbúinn að byrja að salta ef ekki er búið að gera fyrir fram samninga og hverjir eru tilbúnir að gera fyrir fram samninga ef þeir eiga svo von þegar líður á vertíðina á undirboðum? Ég hef ekki heyrt nokkurn mann sem í atvinnugreininni starfar sem vill brjóta þetta niður en einkaleyfið er ekki fyrir hendi.
    Og hvernig eiga stjórnvöld að tryggja eðlilegt umfang síldarsöltunar? Á að gera það með því að hæstv. utanríkisviðskiptaráðherra komi á einhverjum allsherjarsósíalisma á mörkuðunum sem ákveði það að svo og svo mikið magn skuli kaupa af saltaðri síld frá Íslandi? Eða á að gera það með þeim hætti að taka upp svipað kerfi og við höfum búið við í landbúnaðarmálum, að ríkissjóður ábyrgist tiltekið framleiðslumagn? Það er ástæða til þess að hv. þm. geri grein fyrir þessu vegna þeirra orða sem hann lét falla í framsöguræðu sinni.
    Hitt er svo annað mál að við stöndum frammi fyrir miklum vanda vegna þeirra aðstæðna sem komnar eru upp á þeim markaði sem keypt hefur stærstan hluta af saltsíld af okkur Íslendingum. Rússlandsmarkaðurinn er langstærsti markaður fyrir saltsíld sem til er, stærri en allir aðrir markaðir til samans. Þess vegna kemur enginn annar markaður í staðinn fyrir Rússlandsmarkaðinn að því er saltsíldina varðar, jafnvel ekki þó hér væri komið á hinni hörðustu tilskipunarráðstjórn. Menn verða að leita annarra leiða í því efni. Síldarútvegsnefnd hefur fyrir sitt leyti unnið að þeim málum mjög kappsamlega.
    Við Íslendingar höfum þrátt fyrir fall markaðarins í Rússlandi selt stærri hluta af þeirri síld sem við veiðum en aðrar þjóðir til manneldis og minna til mjölframleiðslu. Það ber vott um framtak þeirra sem fást við sölu á síldarafurðum. Það er stóraukið framboð sem hefur lækkað verð. Á Evrópumarkaði höfum við átt við erfiðleika að etja vegna hárra tolla og því miður náðum við ekki þeim árangri sem við hefðum helst kosið í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið að því er síldina varðar.
    Það eru einnig erfiðleikar á Póllandsmarkaðnum. Að því er varðar Norðurlandamarkaðinn vonum við að haldist í horfinu þó búast megi við að hann minnki eitthvað. Þó er þess að geta að síldarútvegsnefnd hefur verið að markaðssetja nýja vöru með fersk roðflett flök og er það nú um helmingur þeirra afurða sem fluttar eru til Norðurlandanna. Þýskalandsmarkaðurinn verður væntanlega svipaður en er erfiður.
    Langstærstu markaðarnir fyrir síld eru fyrir frysta síld og mér er kunnugt um að að bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir hafa unnið kappsamlega að því að auka útflutning á síld, vissulega við erfiðar aðstæður. Á heildina litið sýnist mér því að bæði síldarútvegsnefnd og þeir aðrir aðilar sem vinna að útflutningi síldar, eins og sölusamtökin, hafi gert það sem ýtrast er og best við þessar erfiðu aðstæður.