Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:49:35 (1150)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að beina því til frummælanda að það eru litlar líkur á því að efnahagsástandið í Rússlandi batni þó að síldarútvegsnefnd verði lögð niður. Annað það sem ég hefði viljað hafa mitt innlegg í þessa umræðu er að á síðasta vetri fór efh.- og viðskn. nokkuð rækilega í gegnum þetta mál, hafði um það frumkvæði, ræddi m.a. við Ólaf Egilsson, sendiherra okkar í Rússlandi, sem hefur lagt sig eftir að fylgjast með efnahagsástandinu þar og hinu pólitíska ástandi. Það kom mjög skýrt fram hjá honum að þrátt fyrir þær miklu breytingar sem þar hafa verið á síðustu árum, þá er eitt sem hefur ekki breyst: Það munu ekki nást viðskiptasamningar um síld eða annan útflutning frá okkur öðruvísi en með mjög öflugri vinnu á pólitíska sviðinu og á viðskiptasviðinu, þ.e. hinu pólitíska viðskiptasviði. Sendiherrann sagði að það væri svo einfalt að menn kæmust ekkert áleiðis öðruvísi hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Það yrði ekki byggt upp kerfi frjálsra viðskipta í neinni sjónhendingu í þessu landi. Það yrði áfram að vinna málið eftir öllum tiltækum leiðum, m.a. þeim pólitísku.
    Það hefði þurft að vera í gangi vinna í þessa veru allt síðasta ár. Ég nefni það til viðbótar að ýmsar þjóðir Vesturlanda hafa lagt fé í sjóð, áhættufé, til þess að byggja viðskipti upp að nýju í fyrrum Sovétríkjunum þannig að þetta mál verður að skoða út frá þessum forsendum.