Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:52:07 (1151)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara að það eru dökkar horfur um síldarsölu og þar með um síldarsöltun. Spurningin er hvernig best séað snúast við þessu. Erfiðleikarnir stafa ekki eingöngu vegna þess að efnahagsástandið í fyrrum Sovétríkjunum sé í kaldakoli og einni rjúkandi rúst, heldur líka af því að helstu keppinautar okkar hafa veitt óvenjuvel og bjóða fram jafnt og stöðugt síld á sömu mörkuðum og við keppum á.
    Ég vil geta þess, vegna þess sem kom hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., að sendiherra Íslands í Rússlandi, Ólafur Egilsson, átti einmitt í dag viðræður við utanríkisviðskiptaráðherra Rússlands um þessi málefni. Í því viðtali kom mjög glöggt fram sú skoðun sem með einföldum orðum má lýsa svo að gamla kerfið sé úr sér gengið. Íslenskir útflytjendur verði að snúa sér beint til rússneskra fyrirtækja sem geta skipt á öðrum vörum við þá og geta boðið þeim t.d. fisk fyrir síld eða olíu fyrir síld. Þetta gerist samt ekki sjálfkrafa og tekur sinn tíma. Þar er mikil ringulreið og leikreglur viðskiptalífsins svo sannarlega úr lagi gengnar. En eina vonin er þó að fara beint á staðinn. Þetta tekur tíma eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Við höfum reyndar um það nokkra von að mínu áliti að Evrópumarkaðurinn verði okkur hagstæðari í framtíðinni vegna þess að meðal þess sem EES-samningurinn færir okkur er tollfrjáls aðgangur fyrir flestar tegundir saltaðra síldarflaka. Þangað verðum við að leita. (Gripið fram í.) Já, flestar, langflestar og þær sem mestu máli skipta. Á þetta mun senn reyna. (Gripið fram í.) Þetta er svona. Ég vitna til þess sem aðalsamningamaður okkar hefur sagt að í framhaldi af viðræðum og könnunum á þessu máli framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hafi komið fram að tollayfirvöld aðildarríkja Evrópubandalagsins virðist túlka þessi mál ekki andstætt sjónarmiðum síldarútvegsnefndar.
    Ég vil að lokum nefna, virðulegi forseti, og ég er alveg að ljúka máli mínu, vegna þess sem fram kom hjá hv. 6. þm. Vestf. og vegna þess sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að ríkisstjórnin hefur tekið áhættu í þessu máli. Á sl. vetri var endurlífguð tryggingadeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð í þeim tilgangi fyrst og fremst að greiða fyrir saltsíldarsölu til Rússlands. Deildin ábyrgðist greiðslu á söluandvirði þeirrar síldar sem fór til Rússlands í apríl í fyrra, því miður aðeins tæplega 5 þús. tunnur. Þessar 24,2 millj. á gengi dagsins í dag eru enn ógreiddar. Ábyrgðin stendur til loka ársins. Ramminn, 3 millj. dollara, er hærri í hlutfalli við íslenskan þjóðarbúskap en flest önnur ríki hafa treyst sér til.