Hlustunarskilyrði útvarps á Stöðvarfirði og í Breiðdal

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:28:58 (1155)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 40 ber ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. um hlustunarskilyrði útvarps á Stöðvarfirði og í Breiðdal. Fsp. er svohljóðandi:
  ,,1. Hvað veldur slæmum móttökuskilyrðum á útsendingum hljóðvarps og sjónvarps á Stöðvarfirði og sumpart einnig í Breiðdal?
    2. Hvaða áform eru uppi til að ráða bót á þessu á næstunni?``
    Tilefni fyrirspurnarinnar eru kvartanir sem bornar hafa verið fram við mig um það að móttökuskilyrði frá Ríkisútvarpinu séu mjög ófullnægjandi á þessu svæði, sérstaklega á það við um Stöðvarfjörð en sumpart einnig Breiðdal en mun vera misjafnt eftir því hvar er í byggðarlaginu. Varðandi t.d. sjónvarp þá hefur það gerst undanfarið að mikið hefur fallið út eða truflast að því er virðist af ástæðum sem ekki liggja ljósar fyrir. Ég veit að það hefur verið til umræðu að hitt sjónvarpsfélagið, þ.e. Íslenska sjónvarpsfélagið, leigði sér sérstaka ljósleiðararás fyrir sínar sendingar sem yrðu væntanlega mun betri en frá Ríkissjónvarpinu meðan það ekki notar sömu tækni. Aðalatriðið er það að nauðsynlegt er að tryggja landsmönnum öllum bestu móttökuskilyrði sem hægt er frá þessum aðalfjölmiðlum okkar, sérstaklega ríkisfjölmiðlunum. Það er nóg samt sem veldur mismunun í aðstöðu manna þó reynt verði að tryggja þetta.
    Ég treysti því að hæstv. menntmrh. upplýsi um stöðu málsins eins og hún blasir við frá sjónarhóli Ríkisútvarpsins og ráðuneytisins og bíð eftir svari hans.