Hlustunarskilyrði útvarps á Stöðvarfirði og í Breiðdal

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:34:15 (1158)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Þó að þarna sé verið að ræða um ákveðið svæði á landinu vil ég taka undir þessa fsp. og mælast til þess við hæstv. menntmrh. og óska eftir því úr þessum stól að ráðherra geri alþingismönnum grein fyrir stefnu Ríkisútvarpsins að því er það varðar að tryggja landsmönnum öllum þau sjálfsögðu réttindi að geta hlustað á íslenska Ríkisútvarpið og íslenskt sjónvarp.
    Það er auðvitað útilokað mál og allsendis óviðunandi ástand sem ríkir í þessum málum að allir landsmenn skuli ekki eiga sama rétt til þess að geta hlustað á ríkisfjölmiðla, útvarp og sjónvarp, fyrir utan það öryggi sem því fylgir að hafa þessa sjálfsögðu þjónustu. Því endurtek ég það að ég hvet hæstv. ráðherra og bið um það að hann geri alþingismönnum, ekki endilega nú heldur mjög fljótlega, grein fyrir því hver áform eru uppi um það að tryggja landsmönnum þessi sjálfsögðu mannréttindi.