Svæðisútvarp Vestfjarða

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:39:38 (1161)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að beina tveimur fsp. til hæstv. menntmrh. Greinargerð mín með fsp. er svo hljóðandi:
    Starf fréttamanns hefur verið á Vestfjörðum frá árinu 1986. Þegar svæðisútvarp Vestfjarða tók til starfa árið 1989 var almenn ánægja með það meðal Vestfirðinga og sérstaklega hjá íbúum Ísafjarðarsýslna sem heyrðu strax sendingar. Þar hófust útsendingar en gert var ráð fyrir því að næsti áfangi yrði að koma á útsendingu til annarra hluta Vestfjarða, þ.e. í Barðastrandarsýslur og Strandasýslu. Nú nokkrum árum seinna bólar ekkert á þessari framkvæmd. Íbúar þeirra hluta Vestfjarða, sem ekki ná sendingum svæðisútvarpsins, eru að vonum óánægðir með þennan seinagang. Frá þessum stöðum eru fluttir fréttapistlar í svæðisútvarpinu en hvorki fréttaritari á viðkomandi stað né íbúar hafa möguleika á að heyra þá.
    Það væri einnig eðlileg þróun að hafa starfandi fréttamann sjónvarps í þessum landshluta sem og fleirum en það er aðeins á Akureyri sem sjónvarpið hefur starfandi fréttamann utan Reykjavíkur. Þó öðru hvoru komi fréttamyndir frá Vestfjörðum í sjónvarpi þá starfar sá maður sem þær sendir aðeins sem verktaki. Hann sendir fréttamyndir en hefur enga tryggingu fyrir því að þær verði teknar til birtingar. Æskilegt væri að í tengslum við svæðisútvarpið væri einnig starfandi fréttamaður fyrir sjónvarpið. Þar væri þá samnýting á tækjum, húsnæði og aðstöðu.
    Því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:
  ,,1. Hvenær má vænta þess að sendingar svæðisútvarps Vestfjarða nái til alls fjórðungsins?
    2. Er fyrirhugað að hafa starfandi fréttamann sjónvarps á Vestfjörðum í tengslum við svæðisútvarp Vestfjarða?``