Svæðisútvarp Vestfjarða

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:41:51 (1162)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við fyrri fsp. er þetta að segja:
    Ástæðan fyrir því að svæðisútvarp nær enn ekki til sunnanverðra Vestfjarða er sú að þeim er þjónað frá sendi í Stykkishólmi. Annars vegar þjónar sendirinn þeim svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum sem ná honum beint og hins vegar flytur hann dagskrá til endurvarpa á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og Reykhólum. Þessi aðferð við dreifingu á þessum svæðum var valin þegar kerfið var byggt upp fyrir daga svæðisútvarpanna.
    Ekki virðist tæknilega unnt að ráða bót á þessum sérstaka vanda nema með kostnaðarsömum hætti sem Ríkisútvarpið hefur hingað til ekki séð sér fært að ráðast í. Þetta mál er innanhússmál hjá Ríkisútvarpinu og menntmrn. hefur ekki skipt sér beint af forgangsröðun verkefna hjá stofnuninni.
    Sem svar við síðari fsp. er þetta að segja:
    Samkvæmt upplýsingum frá fréttastofu sjónvarps eru ekki uppi áform um að hafa starfandi fréttamann sjónvarps á Vestfjörðum að svo stöddu. Ríkisútvarpið ákveður sjálft forgangsröð verkefna út frá þeim fjármunum sem það hefur til ráðstöfunar og í þessu gildir það sama og með dreifikerfi svæðisútvarpsins. Menntmrn. lætur stofnunina um að raða verkefnum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu sjónvarps hefur sú þróun orðið á síðustu fjórum árum að kaup á fréttum utan að landi hafa tvö- til þrefaldast og stór hluti þessarar aukningar hefur einmitt verið á kaupum á sjónvarpsefni frá Vestfjörðum.