Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:56:03 (1169)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt er nú fyrir hendi mikið af ónotaðri raforku hjá Landsvirkjun. Iðnrn. hefur lagt fram mikla vinnu og fjármagn til að reyna að selja þessa orku erlendum aðilum til stóriðju en því miður án árangurs enn þá. Hins vegar hefur þess minna orðið vart að unnið hafi verið markvisst að því að fá aukinn markað fyrir þessa orku hjá innlendum aðilum þar sem víða virðast vera möguleikar. Vil ég í því sambandi nefna tvö dæmi.
    Saltfiskur er nú fluttur út óþurrkaður. Meðal kaupanda hans er danskt fyrirtæki sem þurrkar hann og selur síðan. Ástæðan fyrir því að íslenska saltfiskverkunin er ekki samkeppnisfær er sú að danska fyrirtækið fær orkuna til þurrkunar á 50--70% lægra verði en íslensku fyrirtækin. Afleiðingin er sú að Landsvirkjun fær ekkert fyrir þá orku sem þarna væri hægt að selja sem hún getur þó framleitt að kostnaðarlausu en fengið nokkra greiðslu fyrir ef afsláttur væri veittur. Atvinnulaust fólk fær ekki vinnu við þessa starfsemi og ríkissjóður verður að greiða því atvinnuleysisbætur. Þjóðarbúið fær ekki gjaldeyri til að draga úr viðskiptahalla með þeirri verðmætaaukningu sem aukin vinnsla mundi skapa.
    Á undanförnum árum hefur lýsing við garðyrkju farið vaxandi og bændur eru búnir að ná góðum tökum á þeirri tækni. Ársnotkun á rafmagni við lýsingu í gróðurhúsunum er talin vera 9,3 gwst. Hins vegar er áætlað að markaður fyrir auknar afurðir gæfu möguleika til að nota allt að 47 gwst. og sú aukna starfsemi veitti möguleika á 50--100 störfum til viðbótar ef orkan fengist á sambærilegu verði og í nágrannalöndum okkar. Norskir bændur greiða 1--1,50 ísl. kr. á kwst. þegar verðið til íslenskra bænda eru 2,80--3 kr. á kwst. Afleiðingin er sú sama, Landsvirkjun fær ekkert, ríkissjóður greiðir atvinnuleysisbætur og erlendar lántökur vaxa við að greiða innfluttar afurðir.
    Þannig væri hægt að halda áfram að telja upp. T.d. mætti spyrja hve miklu fleiri fiskeldisstöðvar væru nú með framleiðslu þegar afurðaverðið fer hækkandi, eins og kom fram í máli síðasta fyrirspyrjanda, ef orkuverð þeirra hefði verið lækkað meira og fyrr.
    Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. á þskj. 84:
    ,,    Hefur iðnaðarráðuneytið gert úttekt á því hversu mikla orku umfram það sem Landsvirkjun selur nú væri hægt að selja til útflutnings- og samkeppnisiðnaðar ef hún væri seld á hliðstæðu verði og er í nálægum samkeppnislöndum okkar?``