Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:59:43 (1170)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort iðnrn. hafi gert úttekt á því hversu mikla orku umfram það sem Landsvirkjun selur nú væri hægt að selja til útflutnings- og samkeppnisiðnaðar væri hún seld á hliðstæðu verði og tíðkast í nálægum samkeppnislöndum okkar. Til að svara þessu vil ég láta það koma fram að þegar fyrirsjáanlegt var að um verulega umframorku yrði að ræða á íslenskum orkumarkaði á þessu og næstu árum boðaði ráðuneytið í byrjun þessa árs til viðræðna milli fulltrúa Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Sambands ísl. rafveitna og umhvrn. til þess að ræða leiðir til að stuðla að aukinni hlutdeild raforku í okkar orkubúskap og auka sölu á raforku. Það er fyrirsjáanlegt með

tilkomu Blöndu að það á að vera unnt að bjóða orku með núverandi afkastagetu okkar orkukerfis sem svarar 500--600 gwst. umfram það sem markaðurinn spyr eftir. Í þessu verkefni er í aðalatriðum um tvær leiðir að ræða. Annars vegar með ráðstöfunum sem miða að því að raforkan komi í stað olíu og hins vegar með því að stuðla að aukinni starfsemi eða nýjungum. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat réttilega um þá hefur áherslan að undanförnu ekki síst verið á það lögð að fá til landsins nýjan iðnað sem noti orku í stórum stíl.
    Svo ég víki aftur að þessum viðræðum sem fram fóru í byrjun ársins, þá tóku dreifiveiturnar að sér að fara yfir hvar rafmagn gæti komið í stað innflutts eldsneytis í núverandi orkubúskap okkar. Þar nefni ég kannski helst og fyrst stór hús á svo nefndum köldum svæðum, þ.e. þar sem hitaveitukynding á grundvelli jarðvarma er ekki möguleg, og eru nú olíukynnt vegna þess að raforkan er einfaldlega ekki samkeppnisfær við olíu á núverandi verðlagi.
    Ef litið er á núverandi húshitunarspár er talið að olíunotkun til húsahitunar geti verið 120 gwst. um þessar mundir en því miður er að mínum dómi alls ekki raunhæft að rafmagn geti náð öllum þeim markaði en það þarf þó að reyna. Rafmagn er ekki heldur samkeppnisfært við olíu við hitun á sundlaugum. Olíunotkun sundlauga er veruleg, hún er talin um 20 gwst. á ári. Kunnugt er að fiskmjölsiðnaðurinn notar verulegt magn af olíu. Stundum má vera að ótryggt rafmagn geti í sumum tilfellum keppt við olíuna á þessum markaði.
    Landsvirkjun, Rafmagnsveita Reykjavíkur og Rafmagnsveitur ríkisins hafa sameiginlega unnið að því að undanförnu að undirbúa átak í því að selja raforku. Þegar hefur verið mótuð tillaga um nýja skilmála varðandi sölu á umframorku en með þeim skilmálum er að því stefnt að örva tímabundið sölu á raforku umfram venjulega aukningu. Það er gert ráð fyrir því að tekjur af núverandi orkusölu minnki ekki, sem er ákaflega mikilvægt skilyrði, en sala umframorkunnar færi fyrirtækjunum viðbótartekjur sem auðvitað gætu óbeint leitt til lækkunar á öðrum töxtum. Tillaga þessi er núna til meðferðar og umfjöllunar hjá rafveitunum og er álits þeirra að vænta á næstunni. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að notendur geti ákveðið sína notkun á raforku á nýjum sviðum eða hefðbundnum með því að kaupa raforkuna tímabundið á lægra verði en samkvæmt almennum töxtum. Samkvæmt þessari tillögu er það ekki gert að skilyrði enda að mínu áliti óeðlilegt að kaupendurnir væntanlegu séu starfandi í útflutnings- eða samkeppnisiðnaði heldur verði reynt að gefa þeim notendum kost á umframorku sem geta aukið sína notkun umtalsvert. Auðvitað þarf þarna að vera um sýnilega viðbótarsölu að ræða, ekki lækkun á þeirri sölu sem fyrir er. Þessar ráðstafanir mega þó auðvitað ekki verða til þess að skekkja samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja á kostnað annarra sem er fyrir hendi á sama sviði. Þessir skilmálar eru senn fullmótaðir og ég vona að þeir nái nokkrum árangri í því að koma í verð því vatni sem nú rennur arðlaust til sjávar í gegnum vélarnar í Blönduvirkjun og annars staðar.
    Það er erfitt að meta það á þessari stundu hversu mikið er hægt að auka raforkunotkun með þessu átaki en aðstandendur þess vonast til þess að með því verði a.m.k. hægt að bæta við raforkusöluna 15--20 gwst. á ári umfram það sem annars yrði.
    Loks vil ég geta þess, virðulegi forseti, og ég lýk senn mínu máli, að iðnrn. hefur sett á fót sérstakan starfshóp með Hafnasambandinu sem ætlað er að kanna hvort og hvernig unnt sé að auka raforkunotkun skipa sem liggja við festar í höfnum landsins.