Vegasamband hjá Jökulsárlóni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 13:26:58 (1181)


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. sem hér hafa talað um málið og lýst stuðningi við tillöguna fyrir þeirra góðu orð og ábendingar. Það var gagnlegt sem fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. að þessi tillaga hefur raunar þegar verið rædd á vettvangi sveitarstjórnarmanna í kjördæminu, á aðalfundi Sambands sveitarstjórnarmanna í Austurlandskjördæmi, sem ályktuðu um málið og lýstu stuðningi við tillöguna. Það hafa fleiri gert, m.a. bæjarstjórn á Höfn í Hornafirði að því er ég best veit. Hún hefur þess vegna þegar fengið góðar undirtektir. Auðvitað er það skiljanlegt að sjónir Austfirðinga beinist að þessu máli númer eitt og það er alveg hárrétt sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir sagði áðan að okkar er skyldan að fylgjast með málinu, bera það inn á vettvang Alþingis.
    Vegna orða hennar um náttúruverndarsjónarmið að því er snertir Jökulsárlón, þá þakka ég henni fyrir að vekja máls á þessum þætti af því að hann er fullgildur og verður að vera með í skoðun málsins þegar litið er á agðerðir til þess að tryggja samgönguþáttinn. Raunar er það svo sem betur fer að stórframkvæmdir í landinu eru, eiga a.m.k. að vera, undir vökulu auga náttúruverndaryfirvalda, undirbúningur og hönnun slíkra framkvæmda. Við Vegagerð ríkisins hefur fyrir löngu síðan, raunar fyrir 20 árum, tekist prýðilegt samstarf varðandi mannvirkjagerð sem Vegagerð ríkisins á hlut að. Ég get raunar nefnt það að það var að frumkvæði náttúruverndarsamtaka á Austurlandi að slíkt samstarf hófst og varð síðan að föstum lið og fékk sinn farveg í samstarfi Náttúruverndarráðs og Vegagerðarinnar með umsjónarmönnum í hverju kjördæmi landsins sem fylgjast með þessu.
    Ég get fullvissað hv. þm. um að þessu mun áreiðanlega vera fylgt eftir. Breiðamerkursandur með Jökulsárlóni er á náttúruminjaskrá og búinn að vera það lengi. Raunar var áhugi á því að friðlýsa svæðið formlega að náttúruverndarlögum en það komst ekki í höfn á sínum tíma þegar að því var unnið en mætti hugsanlega úr bæta.
    Fáir staðir á Íslandi njóta jafnmikillar athygli og Jökulsárlón vegna þess einstaka samspils sem þar er að finna. Ég hugsa stundum til þess að sennilega er á fáa staði eytt fleiri filmum ferðamanna hér á landi en við lónið vegna þess að umhverfið er síbreytilegt eftir dagstíma og aðstæðum og reyndar árstímum ekki síður. Við þurfum því auðvitað að leggja okkur fram um að þarna verði ekki röskun á til lýta eða óþurftar umfram það sem ýtrasta nauðsyn krefst vegna samgöngusjónarmiða.