Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:47:20 (1201)

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Hún er að sumu leyti mjög merkileg, sérstaklega það að hér er enn einu sinni vakið máls á því sem er alveg augljóst: Það er enginn samningur um Evrópskt efnahagssvæði til. Hann er ekki til. Það eru til slitur af honum eða drög, í besta falli uppkast eða einhvers konar tillögur. Það er þess vegna, eins og hér hefur verið vakið máls á, ekki hægt að tala um neinn

EES-samning. Það er enginn samningur til. Við viðurkennum ekki að neinn samningur sé til. Við höfum ekki samþykkt eitt eða neitt í þá áttina. Við getum, fyrir þá sem vilja berja þessi ósköp í gegn, sagt að í besta falli sé til uppkast að slíkum samningi. Samningurinn er ekki til og það getur enginn íslenskur þingmaður tekið sér það orð í munn. Við verðum að hafa það á hreinu að við erum ekki að tala um neinn samning um Evrópusvæðið yfirleitt og ráðherrar hafa ekki umboð af neinu tagi til að heita einu eða neinu.
    Ég hef spurt um það í þessum ræðustóli hvar heimildir til samþykktar væri að finna, hvar samþykktir væri að finna af Alþingis hálfu, hvaða löggjöf við gætum samþykkt og hvernig hún gæti orðið að lögum. Fyrst verður Alþingi að samþykkja eitthvað, sem það vonandi aldrei gerir. Þá kemur til kasta forseta Íslands að sjálfsögðu og við vitum auðvitað ekki hvað forseti Íslands mun gera við samning sem augljóslega --- og ég segi núna augljóslega --- er þverbrot á okkar stjórnarskrá. Það er ekkert vafamál í mínum huga lengur. Það hefur skýrst það mikið af ummælum manna úti í Brussel og Íslendinga. Það hefur skýrst svo rækilega að Evrópubandalagið kemur til með að hafa nánast öll völd, þar á meðal löggjafarvald í flestum eða öllum málum þegar fram líða stundir og raunar strax ef við samþykkjum samning um Evrópskt efnahagssvæði sem ég vona að guð gefi að hendi þingmenn á Alþingi aldrei. Þar með brytum við stjórnarskrána ofan á allt annað.