Almannatryggingar

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:18:16 (1207)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar með síðari breytingum. Breytingin sem ég legg til er efnislega á þann veg að til viðbótar þeim fimm þingkjörnu mönnum sem sitja í tryggingaráði skipi heilbr.- og trmrh. tvo menn og jafnmarga til vara, annan samkvæmt tilnefningu frá Landssambandi aldraðra og hinn samkvæmt tilnefningu frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp sameiginlega. Með frv. fylgir svo hljóðandi greinargerð:
    ,,Nær samhljóða frumvarp var flutt á 109. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Flutningsmaður var Helgi Seljan.
    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á skipan tryggingaráðs að til viðbótar hinum fimm þingkjörnu fulltrúum, sem þar sitja nú, komi tveir fulltrúar jafnréttháir, þ.e. annar frá Landssambandi aldraðra og hinn sameiginlega frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins er í höndum tryggingaráðs sem setur m.a. reglur um fjölmargt á grundvelli laga um almannatryggingar. Auk þess er ýmsu því vísað til tryggingaráðs sem málsaðilum þykir ekki hafa fengist viðunandi úrlausn á. Fjölmörg vandasöm úrlausnarefni, sem lenda á borði tryggingaráðs, eru á þann veg að þau snerta þá aðila beint og óbeint sem lagt er til að eigi fulltrúa til viðbótar í tryggingaráði. Telja verður bæði eðlilegt og sanngjarnt að fulltrúar þessara samtaka setjist þarna inn til ákvörðunar ásamt þeim þingkjörnum fulltrúum sem fyrir eru. Þar munu koma til verks aðilar sem nákunnugir eru málefnum umbjóðenda sinna.
    Tryggingastofnun ríkisins hefur með höndum viðamikla og vandasama starfsemi sem snertir flesta einstaklinga innan þeirra samtaka sem hér er gerð tillaga um að fái fulltrúa í tryggingaráði. Benda má á að í fjárlögum 1992 er gert ráð fyrir að útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins verði tæplega 25 milljarðar króna eða u.þ.b. 23% ríkisútgjalda. Lífeyristryggingar eru þar áætlaðar um 14,8 milljarðar króna og sjúkratryggingar liðlega 9 milljarðar króna.
    Flutningsmaður leggur áherslu á að ekki er verið að kasta rýrð á þá fulltrúa sem sitja nú og setið hafa í tryggingaráði. Hins vegar er það skoðun flutningsmanns að tryggingaráð verði enn betur í stakk búið til þess að fjalla um og taka ákvarðanir á sviði umbjóðenda þeirra fulltrúa sem lagt er til að bætist í tryggingaráð.
    Allnokkur fordæmi eru fyrir því að hagsmunasamtök eigi aðild að ákvörðunum sem snerta hagsmuni einstaklinga og félaga innan þeirra. Má þar nefna stjórnarnefnd um málefni fatlaðra, svæðisstjórnir um málefni fatlaðra og síðar svæðisráð, en þar eiga Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp fulltrúa og verður ekki annað ráðið af þeirri reynslu en að farsællega hafi til tekist.``
    Ég vil, virðulegi forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni umræðu þessari að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.