Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:30:38 (1209)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Nú fyrir stundu var haldinn fundur í menntamálaráði þar sem ákveðið var að ganga að tilboðum í útgáfurétt á bókum Menningarsjóðs. Þessi fundur er aðeins liður í farsa sem nú hefur staðið yfir um nokkurt skeið og miðar markvisst að því að leggja niður Bókaútgáfu Menningarsjóðs, Menningarsjóð og jafnvel menntamálaráð. Ég ætla ekki hér að ræða um það hvort leggja eigi Menningarsjóð niður og bókaútgáfuna eða ekki. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli Alþingis á því hvernig meiri hluti menntamálaráðs er í raun að taka sér vald í hendur sem það hefur alls ekki. Það er Alþingis að taka ákvörðun um það hvort bókaútgáfan, Menningarsjóður og eftir atvikum menntamálaráð er lagt niður en ekki meiri hluta menntamálaráðs, menntmrh. né ríkisstjórnarinnar. Það getur auðvitað ekki gengið að staðið sé að málum með þessum hætti. Stofnun, sem heyrir undir Alþingi, er lögð í rúst og svo koma ráðherrar til Alþingis með lagafrumvarp þar sem óskað er heimildar til að leggja viðkomandi stofnun niður þannig að í raun eru þeir búnir að gera þetta fyrir fram. Þetta er ekki eina dæmið.
    Ég minni á annað nýlegt dæmi en það er Skipaútgerð ríkisins og sjálfsagt eru þau miklu fleiri. Ráðherrar hafa ekkert vald til þess að ganga fram með þessum hætti og heldur ekki meiri hluti, heil ráð eða nefndir þó að þau séu kosin af Alþingi. Alþingi fer nefnilega með löggjafarvaldið en það virðist farið að vefjast fyrir mörgum. Þeir taka sér margir hverjir löggjafarvaldið í hendur. Það er kominn tími til að Alþingi taki á því hvernig framkvæmdarvaldið er ætíð að taka sér vald sem það hefur alls ekki.
    Þetta mál hefur fleiri hliðar. Nú er það svo að Alþingi kýs ýmis ráð og nefndir, bankaráð, tryggingaráð, húsnæðisstjórn, menntamálaráð o.fl. Þessar nefndir og ráð starfa eftir lögum frá Alþingi. Ef ekki er farið eftir þeim lögum, sem Alþingi hefur sett, er það þá ekki skylda Alþingis að taka á málinu? Ef ríkisstarfsmaður, sem ráðherra hefur skipað, brýtur af sér er það skylda hans að taka á málinu. Ber Alþingi ekki skylda til að taka á máli þeirra sem það kýs og e.t.v. brjóta gegn lögum sem Alþingi setur eða brjóta af sér á einn eða annan hátt?
    Ég velti því t.d. fyrir mér að ef einhver af þeim, sem Alþingi hefur kosið til þess að taka að sér starf í nefnd eða ráði, verður sekur um alvarlegt og augljóst glæpsamlegt athæfi t.d. fjárdrátt eða eitthvað annað og athygli forsætisnefndar eða Alþingis er vakin á því, hefur Alþingi þá engan möguleika að taka á því máli? Hefur Alþingi einungis heimild til þess að kjósa fólk á t.d. fjögurra ára fresti eða eftir því sem segir í lögum og síðan er ekki hægt að taka á því með neinum hætti ef að viðkomandi stjórnir og ráð brjóta gegn þeim lögum sem Alþingi setur? Það er nauðsynlegt að Alþingi geri sér grein fyrir hvernig það getur snúið sér í máli sem þessu.
    Ég tel nauðsynlegt að Alþingi taki á einhvern hátt á slíkum málum og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég er ekki að taka efnislega á því hvort leggja eigi niður Menningarsjóð eða Bókaútgáfu Menningarsjóðs. Það er auðvitað allt annar handleggur. Ef það væri vilji meiri hlutans á Alþingi að leggja Menningarsjóð niður hefði auðvitað verið eðlileg málsmeðferð að leggja fram frv. um það atriði en ekki að fara að með þessum hætti. Því gagnrýni ég harðlega slíka málsmeðferð og tel nauðsynlegt að alþingismenn geri sér grein fyrir hvað þarna er á ferðinni.