Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:35:23 (1211)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það kom fram nokkur misskilningur í máli hv. málshefjanda sem orðaði það einhvern veginn á þann veg að meiri hluti menntamálaráðs hefði tekið sér það vald að leggja ráðið niður. Mér er ekki kunnugt um að menntamálaráð eða meiri hluti þess hafi tekið sér neitt slíkt vald. Það er að sönnu rétt að menntamálaráð verður ekki lagt niður nema Alþingi hafi þar um samþykkt sérstök lög. Hins vegar hefur það ekki farið fram hjá hv. þm. að menntmrn. stefnir að því að leggja bókaútgáfuna niður í því formi sem hún hefur verið og koma á nýrri skipan þeirra mála meira í samræmi við nútímaaðstæður. Niðurstaða mín er því sú að ræða hv. þm. hafi verið á algerum misskilningi byggð. Ég hygg að hún sé til komin vegna bréfs sem tveir fulltrúar í menntamálaráði hafa skrifað Alþingi og er nokkuð sérstætt þar sem þeir óska eftir úrskurði um hver sé ábyrgð þeirra á ákvörðunum meiri hluta ráðsins. Nú er það ekki Alþingis að úrskurða um slíka ábyrgð og fer eftir almennum reglum og kjarni þess máls er sá að sérhver fulltrúi í menntamálaráði ber ábyrgð á því að sjóðurinn taki ekki á sig neinar fjárskuldbindingar umfram það sem fjárhagsáætlanir segja til um sem eru grundvöllur að fjárlögum sem ákveðin eru hverju sinni. Þetta eru skyldur stjórnarmanna að því er þessi atriði varðar og síðan að taka ákvarðanir um starfsemi sjóðsins á þeim grundvelli.
    Í gildandi fjárlögum sem Alþingi samþykkti er heimildarákvæði um að semja um ráðstöfun eigna og skulda og stjórn sjóðsins, menntamálaráð, hefur unnið í samræmi við þessa skýru heimild í fjárlögum sem Alþingi hefur samþykkt, að semja um ráðstöfun eigna og skulda til þess að tryggja eðlilega fjárhagslega meðferð á eignum og skuldum sem hér er um að tefla. Ég lít svo á að menntamálaráð hafi starfað í fullu samræmi við þessa skýru lagaheimild og það kemur mér satt best að segja mjög á óvart ef hv. alþm. gera við það athugasemdir að stjórnarmenn eða fulltrúar í menntamálaráði skuli starfa í samræmi við svo skýrt lagaákvæði. Oft má deila um það hvernig túlka beri ákvæði í lögum en í þessu falli eru heimildirnar bæði skýrar og ljósar og allt það sem meiri hluti menntamálaráðs hefur gert er í fullu samræmi við þetta.
    Í samræmi við mótaða stefnu menntmrn. er nú unnið að frv. sem væntanlega verður tilbúið innan mjög skamms tíma þar sem gert er ráð fyrir nýrri skipan þessara mála og ætlunin er að byggja það á þeirri meginreglu að veita styrki til einstakra verkefna. Það er vissulega svo að fyrir því voru rök á sínum tíma að ríkið gengist fyrir bókaútgáfu af þessu tagi til þess að tryggja ýmiss konar vandaða og menningarlega útgáfu í landinu. Það er ætlunin að standa vörð um þessa meginstefnu en með öðrum hætti og í samræmi við nútímaaðstæður og verður fært í það form að veita styrki til einstakra útgáfuverkefna. Þetta frv. verður lagt fyrir Alþingi og það tekur síðan ákvarðanir í málinu. Menningarsjóður verður til þar til Alþingi hugsanlega tekur nýjar ákvarðanir á grundvelli þess frv. sem væntanlega verður lagt fram.
    Frú forseti. Mér sýnist þess vegna að tilefni þess að hv. málshefjandi stóð hér upp sé einhver misskilningur sem ég vona að nú hafi verið eytt.