Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:41:03 (1212)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Allt saman óskaplega skýrt og ljóst og löglegt, segir hæstv. ráðherra. En það er nú samt ekki skýrara, ljósara eða löglegra en svo að umboðsmaður Alþingis er þeirrar skoðunar að þar sem Menningarsjóður hafi verið settur á stofn með lögum sé ljóst að hann verði ekki lagður niður nema með lögum og nægi ekki í því efni heimild í fjárlögum fyrir fjmrh. til þess að semja um ráðstöfun eigna og skulda sjóðsins. Svo einfalt er það mál. Og ég lít svo á að með því að stjórn sjóðsins hefur í dag tekið tilboði frá Máli og menningu þess efnis að Mál og menning fái allan útgáfurétt sjóðsins, sé þar með búið að leggja hann niður algerlega án þess að málið hafi komið til kasta Alþingis, án þess að vilji Alþingis til málsins hafi komið fram. Það tel ég alvarlegt mál og ég tel ekki að þetta mál sé tekið hér upp af neinum misskilningi heldur einfaldlega vegna þess að þetta snertir stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Stjórn sjóðsins er skipuð af Alþingi og því starfar hún í umboði Alþingis að mínu mati. Það þarf að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hver sé staða þingskipaðra stjórna og nefnda í þjóðfélaginu. Hér er um það að ræða að framkvæmdarvaldið er að fara inn á svið löggjafans, er að setja lög, með öðrum orðum er að leggja niður starfsemi, í sumum tilfellum að selja fyrirtæki án þess að fyrst sé athugað um vilja Alþingis. Það er síðasta atriðið í þessum ferli hjá hæstv. ríkisstjórn að spyrja Alþingi þegar búið er að eyðileggja viðkomandi stofnanir eða viðkomandi fyrirtæki og því er ég andvíg.