Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:49:53 (1216)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg ljóst að það er ekki hægt að leggja niður stofnanir ríkisins nema gera það með lögum frá Alþingi og það er alveg sama hvaða leikfimi ráðherra og einstakir stjórnarþingmenn beita hér í ræðustólnum. Það er ekki hægt að finna nein rök fyrir því. Hin rétta röð mála er að leggja slíkt frv. fyrir Alþingi til að fá það afgreitt og sé það samþykkt, að hefjast þá handa. Það hefur ekki verið gert. Þess vegna hefur verið unnið mjög óeðlilega í þessum málum.
    Mig langar til þess að bera fram tvær spurningar til hæstv. sjútvrh. sem er hér fulltrúi ríkisstjórnarinnar. Sú fyrri er í framhaldi af ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur: Hvernig hyggst ríkisstjórnin fara með Hið íslenska þjóðvinafélag? Hið íslenska þjóðvinafélag er virðulegasta félag þessa lands, tengt Jóni Sigurðssyni sem hér er þjóðhetja Íslendinga á vegg í þingsalnum, eini félagsskapurinn sem fær afnot af Alþingishúsinu til þess að halda aðalfundi sína í þessum sal og Alþingi ber sérstaka ábyrgð á Hinu íslenska þjóðvinafélagi. Það hefur átt sambýli við Menningarsjóð með því að gefa út almanak sitt og sinna öðrum störfum um langan tíma. Hvað hyggst ríkisstjórnin og Alþingi gera við Hið íslenska þjóðvinafélag?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er það stefna ríkisstjórnarinnar að gera menningarlega bókaútgáfu, útgáfu fræðiverka og ritsafna skálda nánast ókleifa hér á landi með því annars vegar að leggja niður það forlag sem hefur sinnt því að hluta til, samanber Íslenska sjávarhætti og orðabækurnar, og svo hins vegar með því að ákveða í fjárlagafrv. að leggja virðisaukaskatt á bókaútgáfu sem mun gera útgáfu meiri háttar ritverka fjárhagslega óarðbæra fyrir einkafyrirtæki? Þetta tvennt er auðvitað slík atlaga að íslenskri menningu að það nær ekki nokkurri átt og ég trúi því varla að það sé orðin stefnuákvörðun ríkisstjórnar Íslands að leggja slíka steina í götu íslenskrar bókmenningar.