Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:55:57 (1219)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er mikill misskilningur hér á ferðinni. Menningarsjóður hefur ekki verið lagður niður. Hér stendur hver þingmaðurinn upp á fætur öðrum og heldur því fram að Menningarsjóður hafi verið lagður niður. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það og það er óumdeilt að það verður ekki gert nema með lögum enda er það ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja frv. fyrir þingið í því efni. Hér hefur einn af hv. þm. Kvennalistans lýst því yfir að það sé líka áform Kvennalistans að flytja frv. um að breyta þessari starfsemi með nýjum lögum og kveða á um hana með nýjum reglum þannig að þar virðist ekki vera á ferðinni mikill ágreiningur. Hér hefur ekki neitt verið lagt niður sem skipað er með lögum og enginn ágreiningur er um að það þarf lagaheimild til þess að gera það og eftir henni verður leitað þegar þar að kemur.
    Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði á hinn bóginn að það vantaði vilja Alþingis í þessu efni til þeirra ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar. Það er rangt. Það hefur komið hér fram og hv. þm. geta kynnt sér það að í fjárlögum þessa árs er skýr heimild til þess að semja um ráðstöfun á eignum og skuldum sjóðsins og það hefur menntamálaráð verið að gera. Þetta er skýr heimild. Og það var nú ekki meiri ágreiningur um það mál, þegar fjárlög voru til afgreiðslu, en að hv. 3. þm. Norðurl. e. greiddi ekki einu sinni atkvæði á móti þessu heimildarákvæði heldur sat hjá. Enginn hv. þm. greiddi reyndar atkvæði á móti þessu ákvæði, enginn hv. þm. gerði það. Og svo koma menn hér upp í röðum og hneykslast stórkostlega. Það er ekki mikið samræmi í því.
    Frú forseti. Ef einhverjir hafa eyðilagt þessa stofnun, þá eru það að mínu mati þeir sem bera ábyrgð á því að hún skuldaði 55 millj. kr. um síðustu áramót sem gerði það óhjákvæmilegt að ganga verður til þeirra verka sem fjárlög þessa árs segja alveg skýrt fyrir um.
    Varðandi Þjóðvinafélagið, frú forseti, af því að fyrirspurn var beint til mín um það efni, þá raska þær ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar, í engu stöðu þess og það heldur útgáfurétti sínum að sjálfsögðu óbreyttum. Það á hann og hann verður ekki frá því tekinn.