Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:59:51 (1220)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á því að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur þessa umræðu og vonast til þess að honum verði gert viðvart ef hann er í húsinu.
    Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál. um jöfnunartoll á skipasmíðaverkefni. Flm. eru Jóhann Ársælsson, Hjörleifur Guttormsson og Steingrímur J. Sigfússon. Tillgr. er eftirfarandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að gefa svo fljótt sem auðið er út reglugerð á grundvelli tollalaga um jöfnunartoll á skipasmíðaverkefni sem framkvæmd eru erlendis fyrir Íslendinga.
     Skal í reglugerðinni miðað við að jöfnunartollurinn verði sem næst jafnhár og þær niðurgreiðslur og ívilnanir sem þau verkefni, sem hér um ræðir, njóta. Tekjum af gjaldi þessu skal varið til þróunarstarfa og nýsköpunar í iðnaði og til stuðnings rannsóknum og verkmenntun samkvæmt nánari ákvæðum sem bundin verða í fjárlögum.
     Skal við það miðað að tollurinn taki til allra samninga sem gerðir verða eftir 16. sept. 1992.``
    Tillögunni fylgir eftirfarandi greinargerð:
    ,,Í skipasmíðum og þjónustu við útgerðaraðila eru fólgin ein stærstu iðnaðartækifæri á heimamarkaði sem Íslendingar eiga. Stefna stjórnvalda hlýtur þess vegna að verða að miða að því að nýta sér þessa möguleika til að skapa atvinnutækifæri í landinu.
     Íslenskur skipaiðnaður hefur átt við mikla erfiðleika að etja á undanförnum árum. Mikill samdráttur hefur orðið bæði í nýsmíðum og viðgerðum. Fyrirtæki hafa hætt rekstri og starfsmönnum hefur fækkað í greininni. Reynsla, þekking og þjálfun hefur glatast til mikils tjóns fyrir alla þessa starfsemi. Á sama tíma hafa mörg skip verið í smíðum og töluverður hluti viðhalds og endurbóta hefur verið framkvæmdur erlendis.
     Tómlæti stjórnvalda og jafnvel neikvæð afstaða forustumanna í sjávarútvegi virðist hafa verið ráðandi í þessum málum á undanförnum árum. Það er löngu tímabært að stjórnvöld vinni markvisst að því að snúa þessari öfugþróun við.
     Skipasmíðar hér á landi hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Ástæðurnar eru ekki verkefnaleysi í þjónustu við íslenska útgerð. Næg verkefni hafa verið til staðar en erlendir aðilar hafa í krafti niðurgreiðslna og ívilnana frá viðkomandi stjórnvöldum getað boðið lægra verð. Ekki er að sjá að breyting verði á opinberum stuðningi við skipasmíðar í helstu samkeppnislöndum okkar á næstunni.
     Það er mjög óskynsamlegt af hálfu Íslendinga að láta þjónustu við aðalatvinnuveg sinn flytjast úr landinu. Skipasmíðaiðnaðurinn getur gefið þjóðinni geysileg atvinnutækifæri á heimamarkaði. Íslenskar skipasmíðastöðvar geta haft í fullu tré við erlenda smíði ef þær fá að standa jafnfætis og þurfa ekki að keppa við niðurgreiðslur og ívilnanir sem ekki eru hér til staðar.
    Nú virðist ný bylgja vera að rísa í endurnýjun skipastólsins. Gömlu ísfisktogararnir eru orðnir úreltir. Nú vantar ný skip og gera þarf breytingar á þeim eldri. Nú er tækifæri til að gefa íslenskum iðnaði, skipasmíðaiðnaðinum, möguleika á að rétta úr kútnum.
    Verði það að veruleika á næstunni að opinber stuðningur við þessa iðngrein verði lagður af í helstu viðskiptalöndum okkar höfum við enn tækifæri til að búa okkur undir frjálsa samkeppni á þessu sviði.``
    Þessu til viðbótar vil ég segja fáein orð almennt um mikilvægi skipasmíðaiðnaðarins. Ég tel að enginn iðnaður, sem við eigum kost á í landinu, hafi stærri heimamarkað og meiri möguleika til að gefa okkur atvinnutækifæri. Ég held að þurfi ekki að sækja sannanir langt fyrir þessu. Það er ekki af heimsku sem aðrar þjóðir styðja skipasmíðaiðnaðinn í löndum sínum og þær þjóðir gefa okkur ekkert. Þar vita menn nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þeir eru að vernda atvinnu og halda í iðnað sem gefur gífurleg tækifæri til atvinnu. Ég er sannfærður um að ekki eru til mörg dæmi um að Íslendingar hafi fengið smíðuð skip eða unnin skipasmíðaverkefni þar sem viðkomandi þjóð hefur tapað á þeim samningi. Þetta hafa menn auðvitað reiknað út hver á sínum stað og komist að niðurstöðu um hvað sé hagkvæmt.
    Mig langar til að vitna í fskj. II sem fylgir tillögunni. Þar er ályktun aðalfundar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja frá árinu 1992 og þar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Á tímum almenns samdráttar í íslensku efnahagslífi, ört vaxandi atvinnuleysis og mikils viðskiptahalla er mikilvægt að efla íslenskan iðnað. Því er hart að vita til þess að Íslendingar hafi á síðustu missirum fjárfest í skipum erlendis fyrir yfir fimm milljarða króna. Er hér um að ræða kaup á nýjum skipum frá ríkisstyrktum erlendum skipasmíðastöðvum og einnig stórfelldan innflutning nýlegra fiskiskipa. Ætla má að þessar fjárfestingar svari til á annað þúsund ársverka, sem er umtalsverður hluti atvinnulausra á Íslandi.``
    Samkvæmt nýjustu tölum, sem hafa komið fram í þessu efni, höfum við núna u.þ.b. 14% af verkefnum innan lands í skipasmíðum. Sannast að segja er ömurlegt hvernig þessu hefur hrakað ár frá ári og hvernig við virðumst vera að glata út úr höndunum á okkur þeim möguleikum sem höfðu þó verið byggðir upp með aukinni verkþekkingu og þjálfun í þeim iðnaði. Í þeirri ályktun, sem ég greip niður í áðan, segir: ,,Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar hefur aldrei verið verri en nú. Nýsmíðar innan lands eru nánast úr sögunni og verkefni við meiri háttar breytingar skipa hérlendis eru í algjöru lágmarki.``
    Á öðrum stað segir: ,,Stjórnvöld standa ráðþrota gagnvart erfiðleikum íslensks skipasmíðaiðnaðar. Sem dæmi um stefnuleysi stjórnvalda í þessum málum má nefna að á sama tíma sem Fiskveiðasjóður Íslands lækkar lánshlutfall sitt vegna innflutnings á skipum í 46% af kaupverði, hafa stjórnvöld gefið útgerðaraðilum heimild til að flytja inn fjölmörg nýleg skip, sem fjármögnuð eru að langmestu leyti með lánum frá erlendum peningastofnunum.``
    Fleira er að gerast í þessu efni. Mig langar til þess að beina spurningu til hæstv. iðnrh. sem lýtur að því að undanfarið hefur verið unnið að því að gera fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Póllands. Í þeim fríverslunarsamningi er ákvæði um skipasmíðar. Það hefur farið á milli mála og menn hafa ekki verið sammála um það hvað væri þar á ferðinni. Í fjölmiðlum hafa komið fram fullyrðingar um það að í samningnum séu skuldbindingar til EFTA-ríkjanna á þann veg að þær geti ekki tekið upp hömlur eða jöfnunargjöld eða hvað það gæti verið sem menn vildu nota til þess að jafna samkeppnisaðstöðu skipasmíðastöðva sinna vegna niðurgreiðslna og stuðnings í Póllandi. Frásagnir af þessu hafa ekki verið samhljóða. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvort samningurinn, ef hann verður undirritaður, gerir okkur erfitt fyrir ef við vildum taka upp einhvers konar stuðning við skipasmíðar okkar, t.d. í formi jöfnunartolla eins og hér er lagt til, eða með einhverjum öðrum ráðum, og hvort gert sé ráð fyrir því að Íslendingar láti koma fram þann vilja sinn og fyrirætlanir að styðja íslenskan skipasmíðaiðnað í bókun við samninginn eða með einhverjum öðrum hætti. Nú liggur fyrir, og það hafa hv. þm. séð í skýrslu sem hæstv. iðnrh. lagði fram á 115. löggjafarþinginu, að það er stefna samkvæmt þeirri skýrslu ríkisstjórnarflokkanna að styðja við íslenskan skipaiðnað. Þar stendur á bls. 21 undir fyrirsögninni Skipa- og málmiðnaður:
    ,,Að undanförnu hefur verið unnið að því að auka samkeppnishæfni iðnfyrirtækja sem eiga í erfiðleikum í harðri samkeppni við erlenda keppinauta svo sem í skipaiðnaði, þar sem verulegar niðurgreiðslur tíðkast á smíðakostnaði keppinautanna. Ríkissjóður Íslands hefur ekki bolmagn til að keppa við ríkissjóði stærri og efnaðri ríkja, en hefur þó veitt skipaiðnaðinum ýmiss konar stuðning.``
    Á öðrum stöðum í þessu lesmáli kemur fram að það séu fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að jafna með einhverjum hætti möguleika íslensks skipaiðnaðar við erlenda samkeppnisaðila. Ekki höfum við séð mikið verða úr þeim fyrirætlunum og ég hef áhuga á því að heyra hvort við eigum von á því að eitthvað fari að gerast, hvort við eigum von á því að ríkisstjórnin fari að leggja fram einhverjar hugmyndir eða tillögur og hvort fyrirætlanir séu um það að taka upp jöfnunartolla. Ég tel einsýnt að við eigum að gera það. Ég tel að við eigum nú ekki neinna kosta völ, tíminn er runninn frá okkur. Miðað við yfirlýsingar og fyrirætlanir þeirra þjóða sem við eigum mest viðskipti við af þessu tagi megum við búast við því að einungis eru fá ár séu þangað til að búið verði að afnema þann opinbera stuðning sem þær þjóðir eru með við skipaiðnað sinn. Á sama tíma höfum við horft upp á að það hefur fjarað undan þessum iðnaði hér á landi. Við höfum misst skipasmíðastöðvar út notkun, við höfum misst fólkið úr vinnu, þjálfunin og þekkingin hefur glatast. Nú þarf að snúa við blaðinu og ég tel að við eigum ekki að horfa upp á það lengur að skipasmíðaverkefni fari úr landi nema í mjög litlum mæli. Við eigum að stefna að því að nota þann tíma, sem fram undan er þangað til þessar breytingar verða gengnar yfir, til að byggja upp þennan iðnað að nýju og koma hlutunum í gang. Við höfum til þess stórkostleg tækifæri. T.d. má minna menn á skýrslu sem kom fram í vetur leið, sem var unnin hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og margir þingmenn hafa séð og heitir ,,Vinnsluskip, fullnýting sjávarafla``. Hún kom út í mars 1992 og fjallar um það stóra verkefni sem blasir raunverulega við, þ.e. að lagfæra og endurbæta skipaflotann hjá okkur, og þá er ég að tala um fullvinnsluskipin sem eru komin á miðin. Það þarf að stækka mörg af þessum skipum og það þarf að breyta þeim þannig að þau geti fullunnið þann fisk sem kemur um borð. Ekki hefur verið minnst mikið á þessa skýrslu síðan hún kom fram. Þarna er á ferðinni geysilega stórt verkefni fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar að breyta þessum skipum. Ef að líkum lætur og menn halda áfram að fljóta sofandi að feigðarósi munu öll þessi verkefni fara til útlendra skipasmíðastöðva og það er ekkert sem bendir til þess í dag að þau geri það ekki.
    Ef menn meina eitthvað með þessum fagurgala um styðja íslenskan iðnað og að íslenskur iðnaður eigi tækifærin í framtíðinni þá held ég að eitthvað verði að fara að gera í málinu. Það hefur komið fram frá þeim sem ættu að bera fulla ábyrgð á orðum sínum að á sl. 20 árum hefur iðnaður á Íslandi skroppið saman og aldrei meira en núna síðustu þrjú árin. Því er ástæða til að brýna menn til að taka á. --- Ég sé að tíma mínum er lokið, hæstv. forseti, ég mun því ljúka máli mínu.
    Ég óska eftir því að þessari till. verði vísað til síðari umr. og til efh.- og viðskn.