Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:15:03 (1221)

     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Íslenskar skipasmíðastöðvar hafa átt við mjög mikla erfiðleika að etja undanfarin 6--8 ár. Nýsmíði skipa fyrir Íslendinga, sem hefur verið mikil á þessum árum, hefur nær öll farið fram erlendis og nú allra síðustu árin hafa stærri endurbóta- og breytingaverkefni í æ ríkari mæli farið sömu leið. Þetta hefur leitt til þess að gífurlegur samdráttur hefur orðið hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í þessari grein, starfsmönnum hefur fækkað jafnt og þétt og flest ef ekki öll fyrirtækin hafa átt í miklum erfiðleikum og sum hætt starfsemi. Það hefur svo aftur leitt til þess að sú mikla reynsla og þekking sem byggð hefur verið upp í íslenskum skipasmíðastöðvum er smám saman að glatast og fari svo sem horfir verður þessi þekking horfin innan örfárra ára.
    Lítum aðeins á hvað hefur gerst hjá stærstu skipasmíðastöðvunum.
    Fyrir 10 árum voru þrjú fyrirtæki áberandi stærst í þessari grein: Slippstöðin á Akureyri með hátt í 300 starfsmenn, þeir munu nú vera tæplega 150 og fyrirtækið hefur glímt við mikla rekstrarerfiðleika. Þorgeir og Ellert á Akranesi var með um 130 starfsmenn, þeir eru nú um 80. Það fyrirtæki hefur einnig glímt við mikla erfiðleika í rekstri og hefði sennilega ekki staðið þá af sér ef ekki hefði komið til mikið nýtt hlutafé og samningar við viðskiptaaðila. Þriðja stóra fyrirtækið var svo Stálvík í Garðabæ þar sem störfuðu a.m.k. 100 manns. Það fyrirtæki varð gjaldþrota og nú eru húsakynni þess notuð fyrir flokkun á sorpi.
    Hið sorglegasta við þetta er að á sama tíma og íslenskum skipasmíðaiðnaði hefur verið að blæða út hafa verkefni fyrir milljarða og aftur milljarða streymt úr landi og verið unnin í erlendum skipasmíðastöðvum sem hafa getað boðið lægra verð vegna margháttaðs stuðnings viðkomandi stjórnvalda, niðurgreiðslna, ívilnana og margs konar aðstoðar. Við þetta er vonlaust að keppa fyrir íslensku fyrirtækin sem eru ekki aðstoðuð á neinn hátt. Því er spáð að opinberum stuðningi við skipasmíðaiðnaðinn verði hætt innan örfárra ára í samkeppnislöndum okkar. Það má ekki gerast að þegar að því kemur verði íslenskur skipasmíðaiðnaður aðeins til í minningunni. Það mun tvímælalaust verða ef ekki verður brugðist við og það fljótt.
    En hvað skal þá verða til varnar? Ég hef því miður efasemdir um að sá jöfnunartollur sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir leysi vandann þótt mér finnist sjálfsagt að skoða tillöguna nánar í hv. efh.- og viðskn. Jöfnunartollur gæti að vísu bætt samkeppnisstöðuna gagnvart Norðmönnum hvað varðar nýsmíði skipa þar sem verðmunur á milli íslenskra og norskra nýsmíða stafar að mestu af þeim niðurgreiðslum sem norsk stjórnvöld veita skipasmíðaiðnaðinum þar í landi. Þessi jöfnunartollur mundi hins vegar ekki vega upp þann gífurlega verðmun sem er á verkum sem unnin eru í Póllandi en þangað hafa flest meiri háttar breytinga- og endurbótaverkefni farið síðustu 2--3 árin, enda er það svo þegar stærri verk eru boðin út þá eru pólsku tilboðin jafnan 40--50% lægri en lægstu boð frá Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Þar kemur náttúrlega miklu fleira til en niðurgreiðslur. Munurinn stafar sjálfsagt fyrst og fremst af því að vinnuaflið þar fæst fyrir nánast ekki neitt. Ástandið í Póllandi er mjög óvenjulegt sem stendur en líklegt verður að teljast að það breytist ört á næstu árum enda ólíklegt að fólki verði haldið við sultarmörk í launum þegar þjóðin hefur jafnað sig eftir kúgun kommúnismans.
    Félag dráttarbrauta og skipasmiðja hefur samþykkt ítarlega ályktun á aðalfundi sínum á þessu ári og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Félag dráttarbrauta og skipasmiðja hefur hingað til ekki gert kröfu til þess að beinir styrkir verði

teknir upp hér á landi. Félagið hefur ítrekað bent á að vanda skipaiðnaðarins ætti að mæta með úrbótum á almennum starfsskilyrðum. Stjórnvöld verða að lýsa því afdráttarlaust yfir að stefnt sé að því að viðhalda skipasmíði og skipaviðgerðum í landinu og tryggja að óeðlilegri erlendri samkeppni, svo sem ríkisstyrkjum og undirboðum, verði mætt með hörðum aðgerðum. Auk þess gerir Félag dráttarbrauta og skipasmiðja þær kröfur að íslenskum skipaiðnaði verði tryggð viðunandi almenn rekstrarskilyrði. Sérstaklega er bent á eftirfarandi atriði:
    Að felld verði alveg niður lán Fiskveiðasjóðs Íslands til nýsmíða og breytingarverkefna erlendis. Samtímis verði lánskjör vegna verkefna innan lands bætt.
    Að stjórnvöld beiti sér fyrir því að lánastofnanir veiti ábyrgðir til verka sem unnin eru í íslenskum skipasmíðastöðvum.
    Að íslenskum skipasmíðastöðvum verði ávallt gefinn kostur á að bjóða í nýsmíði og viðgerðir á skipum fyrir íslenska aðila þegar lán eru veitt til slíkra verkefna af opinberum lánastofnunum.
    Að takmörkunum á komum erlendra fiskiskipa til íslenskra hafna verði að fullu rutt úr vegi.
    Að stjórnvöld beiti sér fyrir því að grundvallarreglur um útboð verði lögfestar.
    Að skip smíðuð á Íslandi fái aukakvóta úr Hagræðingarsjóði og reglum um úreldingu eldri skipa vegna smíði á nýrri skipum verði breytt þannig að þær verði hagstæðar innlendri skipasmíði.
    Að íslenskur skipaiðnaður fái fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands.``
    Í þessari ályktun er bent á nokkur athyglisverð atriði sem sjálfsagt er að taka til athugunar. Sumum þeirra er auðvelt að hrinda í framkvæmd ef vilji er fyrir hendi. Í grg. með þeirri till. til þál. sem hér er til umræðu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Tómlæti stjórnvalda og jafnvel neikvæð afstaða forustumanna í sjávarútvegi virðist hafa verið ráðandi í þessum málum á undanförnum árum.``
    Ég verð því miður að taka undir þetta. Stjórnvöld hafa um langt árabil sýnt þessari iðngrein nokkurt áhugaleysi og það er ekkert sem byrjaði í tíð þessarar ríkisstjórnar. Nýtt dæmi um þetta áhugaleysi er smáverk sem ríkið þarf að láta vinna á strandferðaskipinu Heklu og ætlunin er að vinna í Póllandi. Ekki er oft sem ríkið býður út skipasmíðaverkefni og mér finnst ekki áhorfsmál að þau verk séu eingöngu boðin út innan lands. Mér finnst hreint út sagt forkastanlegt að senda þetta verkefni til Póllands. Af hverju halda menn að stjórnvöld í samkeppnislöndum okkar séu að vernda skipasmíðaiðnaðinn með ýmsum stuðningsaðgerðum? Ætli það sé ekki fyrst og fremst vegna þess að þessi iðngrein veitir mikla atvinnu. Ef hægt væri með einhverjum hætti að halda þessum verkefnum heima í meira mæli en nú er þá mætti fjölga starfsmönnum í íslenskum skipasmíðastöðvum um nokkur hundruð og aðstaðan er fyrir hendi, húsnæði, vélar, tæki og búnaður --- það vantar bara verkefnin.
    Sjálfsagt hefur ýmislegt verið að í íslenskum skipasmíðastöðvum og þær þurft að endurskipuleggja reksturinn. Fyrir u.þ.b. fimm árum, ég held það hafi verið 1987, var fengið enskt ráðgjafarfyrirtæki, Appeldore, til að gera úttekt á íslenskum skipasmíðastöðvum og tillögur um stefnumótun, bæði fyrir iðngreinina í heild og eins fyrir einstök fyrirtæki. Iðnrn. hafði frumkvæði að þessu þarfa verkefni, fjármagnaði það að verulegum hluta og sýndi því mikinn áhuga. Þessi úttekt var mjög gagnleg og í skýrslu Appeldore er bent á ýmislegt sem betur mætti gera í íslenskum skipasmíðastöðvum. Því miður hafa skipasmíðastöðvarnar ekki séð til sólar síðan þessi úttekt var gerð vegna verkefnaskorts og rekstrarerfiðleika og hefur sú endurskipulagning sem stefnt var að því ekki tekist sem skyldi. Ég tel því að ef gert verður átak til að beina verkefnum til íslenskra skipasmíðastöðva verði um leið að ljúka þeirri endurskipulagningu sem unnið hefur verið að í þeim fyrirtækjum sem starfa í þessari grein svo þau verði betur í stakk búin til nýsmíða og viðgerða en nokkru sinni fyrr.
    Ég tel mikilvægt að það takist að snúa vörn í sókn í íslenskum skipaiðnaði. Það þolir ekki bið því ef svo fer sem horfir þá leggst þessi iðnaður af á allra næstu árum. Við það mundi glatast sú mikla reynsla og þekking sem Íslendingar hafa aflað sér á þessu sviði á undanförnum 20--30 árum jafnframt því sem almenn viðgerðarþjónusta við íslenska flotann yrði ekki svipur hjá sjón. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum umfram aðrar þjóðir að hafa öflugan skipaiðnað sem getur veitt góða þjónustu jafnt í stærri sem smærri verkum. Það má einnig minna á það að íslenskar skipasmíðastöðvar hafa verið miklar iðnmenntunarstöðvar og stór hluti járniðnaðarmanna og annarra iðnaðarmanna hafa lært fag sitt hjá þessum fyrirtækjum.
    Við höfum öll miklar áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi um þessar mundir. Gífurlegur samdráttur í þorskveiðum og landbúnaði veldur miklum erfiðleikum. Menn leita með logandi ljósi að nýjum atvinnutækifærum sem því miður hafa látið á sér standa. Í íslenskum skipaiðnaði er tvímælalaust möguleiki á mikilli fjölgun starfsmanna ef það tekst að finna leiðir til að beina verkefnum heim og stöðva þá öfugþróun að öll verk sem máli skipta séu unnin erlendis. Þess vegna þarf að skoða alla hugsanlega möguleika á næstunni, m.a. þá leið sem þessi þáltill. bendir á og ekki síður ábendingar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja, sem ég gat um hér áðan.