Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:24:30 (1222)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa mörg orð í þessari umræðu. En þetta mál varðar nokkur grundvallaratriði í íslensku atvinnulífi og kemur við vaxandi atvinnuleysi og einnig það

hve gáleysislega við förum með auðlind okkar, mannauðinn eða verkþekkinguna.
    Ég get tekið undir þá meginhugsun þáltill. að skipasmíðaiðnaði og þeirri þekkingu sem honum fylgir verði haldið hér í landinu. Ég vil benda á að fyrir nokkrum árum, er verið var að ræða málefni skipasmíða á Íslandi, kom það fram í fréttum fjölmiðla að það hafði orðið niðurstaða Dana að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að taka innlendum tilboðum í skipasmíðar sem eru allt að 20% hærri en erlend tilboð. Þetta var stutt fjölmörgum rökum. Þetta er hins vegar staðreynd sem ekki hefur verið gefinn gaumur hér. Ekki hefur verið gripið til þeirra ráðstafana sem þarf til að gera þeim sem kaupa skip kleift að taka dýrari innlendum tilboðum e.t.v. með einhverjum stjórnvaldsaðgerðum sem gera það mögulegt.
    Fyrst og fremst eru þau þjóðhagslegu atriði sem Danir líta til, sú dýrmæta þekking og atvinna sem ella flyst úr landi. Ég vil einnig minna á að atvinnuleysi kostar fé. Ef ég man rétt tölur hæstv. félmrh. er hvert prósentustig í atvinnuleysi upp á 200 millj. kr. og leiðrétti mig einhver ef hann man betur. Ég vil í þessari umræðu ekki taka afstöðu til þeirra aðferða sem hér er bent á að hægt sé að nota, jöfnunartolla, eða til einhverra annara aðferða. En ég treysti því að hv. nefnd, sem fær málið til umfjöllunar athugi það mál gaumgæfilega.
    Það sem mér finnst varða mestu er það að við erum að fjalla um grundvallaratriði. Við erum að tala um verkþekkingu, við erum að tala um atvinnu og við erum að tala um hvort atvinnugrein er byggð upp eða hvort við ætlum að brjóta niður enn eina atvinnugreinina. Við höfum fordæmin fyrir okkur, við höfum reynsluna af því hvernig húsgagnaiðnaðurinn t.d. hefur farið hér á landi. Hér er um enn stærra mál að ræða að mínu mati.