Húsnæðisstofnun ríkisins

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 17:05:16 (1231)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. á þskj. 105 um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins með síðari breytingum. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og komst til nefndar og var sent út til umsagnar undir þinglok en náði ekki fram að ganga á því þingi. Frv. er endurflutt óbreytt. Efnisatriði þess eru þau að veita ungmennum sem skylt er að spara tryggingu á sínum skyldusparnaði. Það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna að þó þau séu ákveðin hvað varðar skyldur ungmenna til að leggja til hliðar hluta af launum sínum í sparnað og skyldur launagreiðenda til að taka þennan sparnað af ungmennum og skila til Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur sú stofnun ekki lagaleg úrræði til að fylgja þessu eftir. Í lögunum eru heldur ekki ákvæði sem tryggja þann skyldusparnað sem liggur í fyrirtækjunum. Það eru því miður allt of mörg dæmi sem hafa komið upp og eru reyndar fleiri dæmi fram undan um að skyldusparnaður liggi í fyrirtækjum árum saman án þess að vera skilað og ungmenni glati honum jafnvel með öllu ef viðkomandi fyrirtæki verður gjaldþrota.
    Þessu frv. er ætlað að mæta þessum annmörkum með því að í 1. gr. frv. er bætt inn nýrri grein í lögin sem veitir stofnuninni úrræði til þess að sækja sparnaðinn. Í 2. gr. er kveðið á um að ríkið hafi milligöngu í málinu, að skyldusparandi geti fengið kröfuna innleysta hjá ríkinu og síðan taki ríkið við og innheimti hjá launagreiðanda, þ.e. að ríkið taki á sínar herðar áhættuna.
    Þetta er ekki nema eðlilegur hlutur í ljósi anda laganna og því að gagnvart ríkisfyrirtækjum, stofnunum þess eða sveitarfélögum, er um að ræða fullgildar tryggingar fyrir skyldusparendur. Þeir geta gengið að því vísu að þeirra atvinnurekandi muni skila sparnaðinum og er meira segja sérstaklega kveðið á um það varðandi ríkisfyrirtæki að fjmrh. ber ábyrgð á því að koma sparnaðinum til skila. Það er einungis á hinum almenna vinnumarkaði sem skyldusparendur búa við þetta óöryggi.
    Tilurð frv. er sú að það var samið í Húsnæðisstofnun ríkisins af lögmanni stofnunarinnar, Helga V. Guðmundssyni, og sent hæstv. félmrh. í febrúar 1991 með ósk um að ráðherrann flytti frv. Hins vegar varð ráðherrann ekki við því þannig að það varð úr að ég tók að mér að flytja frv. á Alþingi til þess að freista þess að fá samþykki þingheims fyrir því að ungmenni á almennum vinnumarkaði njóti sömu verndar með sinn skyldusparnað og ungmenni hjá opinberum aðilum.
    Eins og ég gat um var málið sent út til umsagnar undir lok þingsins og þær bárust í sumar. Ég vil nota tækifærið og þakka formanni félmn., hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að senda málið út því það flýtir fyrir málinu nú og styrkir það að mínu mati efnislega. Umsagnir liggja fyrir frá Alþýðusambandi Íslands þar sem hvatt er til þess að frv. verði samþykkt. Jafnframt leggur miðstjórn Alþýðusambandsins til að við frv. verði bætt ákvæði um reglubundið eftirlit með skilum, t.d. í tengslum við staðgreiðsluskil skatta. Þetta er ábending sem ég get vel tekið undir og mun hvetja til þess að sú nefnd sem málið fær til meðferðar athugi þessa ábendingu.
    Enn fremur liggur fyrir umsögn frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga sem styður slíka lagasetningu og hvetur þingið til að samþykkja frv. Sömuleiðis frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og húsnæðismálastjórn. Þeir aðilar sem helst að þessu máli koma hafa þannig allir lýst yfir stuðningi við það í þeirri mynd sem það er flutt.
    Ég vil svo að lokum víkja að þeim fréttum sem bárust nýlega um áform félmrh. um að leggja niður skyldusparnað í núverandi mynd. Menn kunna að spyrja sem svo: Er þörf á því ákvæði sem frv. hefur að geyma ef þetta eru áformin? Svar mitt er já. Í fyrsta lagi vegna þess að frv. er ætlað að ná til skyldusparnaðar síðustu fjögur árin fyrir gildistöku frv. og er því nauðsynlegt þó ekki væri nema vegna þess sparnaðar sem enn er óinnheimtur. Í öðru lagi vegna þess að ég tel víst að skyldusparnaður verði ekki lagður niður og að ekki séu áform uppi um það heldur einungis um að breyta skyldusparnaði, þ.e. fækka undanþágum og lækka skyldusparnaðarprósentuna. Eftir sem áður verður skyldusparnaður við lýði. Tæknilega séð er það í raun óframkvæmanlegt að leggja niður skyldusparnað með öllu á einu bretti. Í Húsnæðisstofnun ríkisins liggja 4,2 milljarðar á skyldusparnaðarreikningum sem stofnunin yrði þá að borga út á skömmum tíma og hún hefur ekki fé til þess. Ríkissjóður yrði því að leggja henni til það fé. Ég sé ekki fyrir mér að ríkissjóður, svo aumur sem hann er blessaður, eigi einhvers staðar í hirslum 4,2 milljarða til að snara út á skömmum tíma. Að mínu mati breyta þau áform að leggja niður skyldusparnað í núverandi mynd engu um nauðsynina á því að frv. verði samþykkt.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.