Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 21:18:03 (1236)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Árferðissveiflur eru kunnar í okkar þjóðarsögu. Um þessar mundir vegur þar þyngst samdráttur í þorskafla og minnkandi markaður fyrir búvörur. Sagan sýnir að við slíkar aðstæður skiptir mestu máli hvernig ríkisstjórn tekst að leiða þjóðina til að sigrast á erfiðleikunum.
    Hæstv. forsrh. hefur kynnt stefnu ríkisstjórnar sinnar og byggir þar á reynslu af 17 mánaða setu. Sú stutta saga gefur ekki fögur fyrirheit og er reyndar þegar orðin allt of löng og þjóðinni dýr. Afleiðingarnar af fyrstu aðgerð ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, vaxtahækkuninni miklu, koma nú fram í atvinnuleysinu. Sú aðgerð fyllti menn vonleysi og breytti viðunandi afkomu fyrirtækja og einstaklinga í hallarekstur sem síðan hefur farið vaxandi. Áfram hélt ríkisstjórnin á sömu braut með skattlagningu á atvinnuvegina og miklum bölmóði.
    Fjárlagagerðin er ömurlegt dæmi um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það virðist eins og á hinum löngu nætursetum sé hún í teningakasti um hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Einn morguninn hafði komið upp ákvörðun um að leggja slíkar drápsklyfjar á vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustuna, að allir sem til þekkja töldu það hafa svipuð áhrif og ferðabann á erlenda gesti. Næsta morgun var það íslensk menning sem skyldi borga brúsa ríkisstjórnarinnar. Nú þegar fjárlagafrv. hefur verið lagt fram segir hæstv. fjmrh. að kannski verði það eitthvað allt annað. Kannski þetta eða kannski hitt og allir þegnar þjóðfélagsins búa í stöðugum ótta því enginn veit hverjum ríkisstjórnin ætlar að súpa seyðið af næstu næturvöku sinni. Ruglið og vitleysan er alveg ótrúleg í orðum og gerðum hæstv. ráðherra.
    Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni að öll ráðuneyti þyrftu að grisja reglugerðaskóginn. Veit hæstv. forsrh. ekki að hann vill að Alþingi lögfesti samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með hundruðum eða þúsundum nýrra reglugerða frá Evrópubandalaginu sem byggjast á 60% af löggjöf þess? Jafnframt eigum við að skuldbinda okkur til að samþykkja ótakmarkaðan fjölda nýrra reglugerða frá því í framtíðinni þar sem við megum engum staf breyta. Veit hæstv. forsrh. ekki að aðalatriðið í nærri hverju nýju stjfrv. er að ráðherrarnir setji reglugerðir um það sem þarf til að hlýða fyrirmælum Evrópubandalagsins og innihald sumra er lítið annað? Telur hann að sá reglugerðarfrumskógur sé af hinu góða af því að þar lútum við erlendu valdi?
    Boðskapurinn til bænda í stefnuræðunni er eingöngu sá að landbúnaðurinn standi á tímamótum og þar séu miklir erfiðleikar. Bjargráð ríkisstjórnarinnar er samt að skera niður í fjárlagafrv. fjárveitingar, sem á einhvern hátt er hægt að tengja landbúnaði, um 3 milljarða kr. frá síðasta ári, þar á meðal til allra þeirra þátta sem áttu að stuðla að uppbyggingu í stað þess samdráttar sem leiðir af núgildandi búvörusamningi. Þegar við bætist hið gífurlega ört vaxandi almenna atvinnuleysi má segja að forsendurnar sem lagðar voru

til grundvallar þeim samningi séu algerlega brostnar. Hæstv. landbrh. svarar engu spurningum hér á Alþingi um það hvað ráðuneytið áætli að mörg hundruð störf muni að auki leggjast niður í landbúnaði ef samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær fram að ganga. Eina huggun hæstv. forsrh. til bænda er að segja að framhaldið verði ekki sársaukalaust. Á sama tíma er starfsemi Byggðastofnunarinnar lömuð með setningu nýrrar, strangrar reglugerðar hæstv. forsrh. og fjársvelti stofnunarinnar. Veit hæstv. forsrh. ekki að þegar dauft er í sveitum er hnípin þjóð í vanda?
    Það var harður dómur um algera vanhæfni ríkisstjórnarinnar til að meta rétt ástandið í þjóðfélaginu þegar hæstv. fjmrh. sagði nýlega að ástandið væri tiltölulega gott. Hvað segja þeir sem nú leita sér árangurslaust að atvinnu um slíka fullyrðingu? Eða fyrirtækin sem róa lífróður fyrir tilveru sinni frá degi til dags? Það eru ekki pappírarnir á völtum borðum víxlaranna sem þjóðin lifir á heldur verðmætin sem hún aflar með hugviti og hörðum höndum. Hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpsviðtali að með orðum sínum gerði hann allt vitlaust í þingflokki Sjálfstfl. Við þolum ekki ríkisstjórn sem með orðum og gerðum gerir allt vitlaust í þjóðfélaginu. Við þurfum ríkisstjórn sem styður og hvetur til uppbyggingar og framfara. Við þurfum ríkisstjórn sem stuðlar að bættum mannlegum samskiptum og hamingju einstaklingsins. Við þurfum ríkisstjórn sem sameinar en sundrar ekki.