Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 21:24:32 (1237)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Nú er starfið í skólum landsins komið á skrið. Árlega útskrifa þeir mikinn fjölda ungs fólks sem á sér ekki aðra ósk heitari en þá að fá störf sem nýta kunnáttu þess og starfsorku við atvinnuvegi sem hafa skilyrði og kjark til þess að leggja í nýjungar og vilja fjárfesta í íslenskri framtíð. Ríkisstjórnin veitir forustu inn í slíka framtíð.
    Við þurfum nú að sigrast á nokkrum erfiðleikum í okkar þjóðarbúskap. Eftir kyrrstöðu undanfarinna ára er því spáð að landsframleiðslan muni dragast saman um rúmlega 3% á þessu og næsta ári. Þetta er vissulega alvarlegt bakslag en það er alls ekki einsdæmi og við munum snúa því við.
    En hverjar eru ástæður erfiðleikanna sem nú steðja að?
    Ég nefni fyrst þá efnahagslægð sem grúfir yfir Evrópu og Norður-Ameríku. Ókyrrð á gjaldeyrismörkuðum heims og stjórnmálaóvissa vegna Maastricht-samningsins í Evrópu og forsetakosninganna í Bandaríkjunum eykur á óvissuna um efnahagshorfur á næstunni. Hér heima er ástæðan ekki síst sú að mikilvægir fiskstofnar standa tæpt og nauðsynlegt er að takmarka í þá sóknina. Svo bætist það við að á síðustu mánuðum hefur verð á sjávarvörum lækkað nokkuð. Þetta ástand hefur þýtt alvarlegan afturkipp í íslenskum útflutningstekjum.
    Það er við þennan bakgrunn sem atvinnuleysið og áhyggjur okkar af því ber. Það er nú um 3% þegar á heildina er litið og því er því miður spáð að það vaxi að öllu óbreyttu á næstu missirum. Atvinnuleysið er mismunandi eftir landshlutum. Á Suðurnesjum er það t.d. nærri tvöfalt landsmeðaltal og meðal kvenna á Suðurnesjum er það enn meira. Þessu ætlum við að breyta til betri vegar. Á þessu verður tekið.
    Því fer fjarri að myndin sem við blasir sé öll í dökkum litum. Í fyrsta lagi mun fljótlega, samkvæmt eðli máls, draga úr stjórnmálaóvissu bæði austan hafs og vestan. Mín trú er sú að þá muni loks hefjast hinn langþráði efnahagsbati. Þá nefni ég ekki síður að 19 Evrópuríki, þar á meðal Ísland, skrifuðu í vor undir samning um Evrópskt efnahagssvæði. Þessi samningur bíður nú samþykkis Alþingis. Hann býður mikla vaxtarmöguleika fyrir íslenskt atvinnulíf. Mikilvægasta atvinnuverkefni á Íslandi er nú að Alþingi staðfesti þennan samning. Það er verk sem þjóðin hefur kosið menn á þing til að vinna. En síðast en ekki síst er bjarta hliðin á málunum sú að sigur hefur unnist í 50 ára stríði við verðbólgu á Íslandi. Hún er nú um eða innan við 2% og með því minnsta sem gerist á Vesturlöndum. Þegar allt lék á reiðiskjálfi á gjaldeyrismörkuðum Evrópu fyrir nokkrum vikum var allt með kyrrum kjörum á Íslandi. Ísland virtist þá eygja stöðugleika í hafi efnahagsókyrrðar. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Nú er brýn nauðsyn að gera grundvallarbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði. Við gjöldum fyrir það að þessar greinar hafa ekki tekið fullan þátt í þeirri aðlögun að markaði og frjálsræði sem orðið hefur í öðrum atvinnugreinum á undanförnum árum. Samningar á grundvelli GATT um aukna fríverslun á þessum sviðum munu væntanlega knýja hér fram æskilegar breytingar á næstu árum.
    Það er líka alvarlegt umhugsunarefni hvort þróunin í fiskvinnslu sé á réttri braut með tilliti til atvinnu. Það eru dæmi um sjávarpláss með ríflegan kvóta en samt skortir verkefni í landi. Það þarf að tryggja að vinnsluskipin hafi ekki í reynd rýmri kvóta en hin sem veiða fyrir landvinnslu.
    Við þurfum nú virka stjórnarstefnu til þess að örva nýsköpun í atvinnulífinu. Ég nefni hér þrjú mikilvæg atriði.
    1. Það þarf að afgreiða fjárlögin þannig að þau styrki stöðugt gengi, dragi úr lánsfjárþörf hins opinbera og skapi skilyrði fyrir lækkun vaxta.
    2. Nauðsynlegt er að samræma skattakjör atvinnuveganna hér á landi því sem gengur og gerist innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Það þarf að lækka bæði launatengd gjöld og aðstöðugjaldið. Það er brýnt að samræma nú skattmeðferð fjármagnstekna og eignatekna þannig að sanngirni ríki í skattlagningunni.
    3. Nú er nýsköpun í atvinnulífinu nauðsyn og það er því afar mikilvægt að efla rannsókna- og þróunarstarfsemi og markaðsstarf fyrir íslenska framleiðslu og þjónustu.

    Það er ánægjulegt að fjárlagafrv. fyrir næsta ár og nýákveðnar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnu bera vitni um nýjar áherslur og virka atvinnustefnu í samræmi við þessi sjónarmið. Ég nefni þrennt. Fyrst að ákveðið hefur verið að tvöfalda á næstu árum fjárveitingar til Rannsóknasjóðs. Einnig hefur verið ákveðið að verja 100 millj. kr. á næsta ári í sérstakt markaðsátak til að styðja sókn íslenskra fyrirtækja inn á Evrópumarkað og loks hefur verið ákveðið að verja fimmtungi söluandvirðis seldra ríkisfyrirtækja til að styrkja nýsköpun í atvinnulífinu. Hér verður væntanlega um að ræða á annað hundrað millj. kr. á ári til jafnaðar sem viðbótarfé næstu árin. Rannsókna- og þróunarstarfið sem þannig verður eflt mun skila árangri í framtíðinni. Það mun markaðsátakið líka gera.
    En hvað er til bjargar á næstu mánuðum og missirum? Ég nefni fyrst að í meðförum Alþingis á fjárlagafrv. verðum við að huga sérstaklega að því sem ég nefndi áðan, að lækka kostnaðarskatta atvinnuveganna til þess að tryggja samkeppnisstöðu þeirra. Þetta má þó ekki auka fjárlagahallann. Á móti verður að koma lækkun útgjalda eða hækkun neysluskatta. Það er óhjákvæmilegt til að varðveita stöðugleikann. Við þessar aðstæður verðum við einfaldlega að breyta forgangsröð.
    Til að efla atvinnu hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja allt að tveimur milljörðum kr. til sérstakra vegaframkvæmda, opinberra bygginga og viðhalds þeirra á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að verja nokkru fé í samvinnu við lánasjóði til almennra aðgerða til að draga úr áhrifum aflaskerðingar vegna þorskbrests á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá hefur náðst mikilvægt samkomulag við sveitarfélögin um sérstakt framlag þeirra til eflingar atvinnu.
    Þegar við ræðum nú eflingu atvinnulífsins er nauðsynlegt að huga sérstaklega að erfiðleikum einstakra atvinnugreina og fyrirtækja, svo sem skipasmíða og járnblendiverksmiðju. Á þeim málum verður skipulega tekið á næstunni. Þrátt fyrir erfitt ástand á álmörkuðum, eins og mörgum öðrum iðnvörumörkuðum, er nú að hefjast nýr kafli í viðræðum um álframkvæmdir. Sannleikurinn er sá að endurnýjun álvera kemur líklega fyrr fram en áður var talið vegna efnahagskreppunnar. Þetta mun styrkja stöðu Íslands eins og skýrast mun á næstu missirum. Þá fara nú einnig fram viðræður á mörgum vígstöðvum um hugsanlega lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópu.
    Þannig mætir ríkisstjórnin erfiðleikunum með því að snúa vörn í sókn. Það er miklu betra að kveikja á kerti en kvarta yfir myrkrinu.
    En hvar eru og hver eru úrræði stjórnarandstöðunnar? Hingað til engin. Hún hefur látið sér nægja að kvarta yfir myrkrinu og kúra þar úrræðalaus. Það má vera að menn hafi nú síðustu daga reynt að bregða upp nýjum leiktjöldum en það breytir því ekki að það er vart hægt að hugsa sér aumlegra hlutskipti fyrrv. forustumanna ríkisstjórnar en að þvælast fyrir umbótamálum, notfæra sér erfiðleika og atvinnubrest til þess að slá sig til riddara með málalengingum og þingskapaþrætum eins og sumarþingið sýndi.
    Er hægt að hugsa sér óskynsamlegri stefnu en yfirboð stjórnarandstöðu í ríkisútgjöldum?
    Er hægt að hugsa sér meira dáðleysi en að víkja sér undan ákvörðunum í EES-málinu með órökstuddum kröfum um stjórnarskrárbreytingar og þjóðaratkvæði?
    Ég spyr líka: Hefði atvinnan í landinu aukist ef farið hefði verið að tillögum stjórnarandstöðunnar sem vildi miklu meiri niðurskurð á fiskveiðiheimildum?
    Ég spyr ykkur líka: Bætir það atvinnuhorfur fiskvinnslufólks að Ísland standi utan við EES eins og stjórnarandstaðan virðist vilja?
    Ég spyr ykkur loks: Tryggir það stöðugleika að gefast bara upp og fella gengið eins og formaður Framsfl. hefur lagt til?
    Svarið er að sjálfsögðu nei í öllum greinum. Foringjar stjórnarandstöðunnar eru því miður riddarar ráðleysis og ábyrgðarleysis. Formaður Framsfl. hefur til þessa ekki haft neinar aðrar hugmyndir fram að færa en valdboð í vaxtamálum og gamaldags gengisfellingarsöng. Gengi stjórnarandstöðunnar er löngu fallið.
    Það er athyglisvert að bera framgöngu hennar saman við stjórnarandstöðuna í Svíaríki sem hefur nýlega tekið höndum saman við ríkisstjórnina þar til þess að tryggja samkeppnisstöðu og stöðugleika. Það er fyrst nú þessa daga sem forustumenn stjórnarandstöðunnar virðast vera að átta sig á því að fólk dæmir framgöngu þeirra hart. Þeir eru farnir að skipta um tóntegund. Í þessu felst auðvitað viðurkenning á því að þeir hafi verið á villigötum. En það er athyglisvert að það var varaformaður Framsfl. en ekki formaður hans sem fyrir fáum dögum lýsti vilja sínum til samstarfs um efnahags- og atvinnumál. Og nú um helgina kom formaður Alþb. á hæla honum fram í fjölmiðlum og talaði um það sama. Reyndar mátti helst á honum skilja að hann hefði sjálfur fundið upp sænsku leiðina. Þetta veit vonandi á sinnaskipti en það verður ekki mark á þeim takandi fyrr en fram kemur raunverulegur vilji til þess að taka á erfiðum málum á sviði ríkisfjármála og til þess að staðfesta EES-samninginn.
    Góðir áheyrendur. Frændur okkar Færeyingar hafa lent í miklum kröggum. Almenningur þar í landi hefur misst trú á stjórnmálamönnum, einmitt stjórnmálamönnum sem hafa rekið stefnu eins og þá sem stjórnarandstaðan hér hefur boðað. Það er vísasti vegurinn til ófarnaðar.
    Góðir áheyrendur. Það er ekkert sem er jafnfljótvirkt að brjóta niður manneskjuna og atvinnuleysið. Gegn því munum við berjast af alefli. Nú þarf breiða samstöðu um virka atvinnu- og efnahagsstefnu milli stjórnvalda, samtaka á vinnumarkaði og fjármálastofnana. Ríkisstjórnin hefur tekið frumkvæðið. Hún kveikir ljós en kvartar ekki yfir myrkri.