Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 22:08:34 (1241)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti, góðir áheyrendur. Það voru kokhraustir menn sem gengu í land úr Viðeyjarbátnum í apríllok í fyrra. Þar höfðu þeir ræðst við, formenn Sjálfstfl. og Alþfl., fjarri skarkala heimsins og sett á blað nokkur heilræði til að stjórna landinu eftir. Þetta átti að verða mikil stjórn undir menntuðu einveldi foringjanna. Í framhaldi af þessu voru heilræðin útfærð í hvítbók sem kölluð var ,,Velferð á varanlegum grunni``. Man einhver hlustanda eftir því plaggi? Svo mikið er víst að forsrh. minntist ekki á það einu orði í ræðu sinni hér áðan.
    Fyrirheitin um skeleggar aðgerðir á flestum sviðum hafa vikið fyrir doða og aðgerðaleysi. Eftir að hafa hlýtt á stefnuræðu forsrh. hljóta menn að spyrja hversu lengi ríkisstjórnin ætli að hafa hendur í skauti. Fyrir utan það að þröngva samningi um Evrópskt efnahagssvæði upp á þing og þjóð virðist eina áhugamálið vera að brjóta niður velferðarkerfið undir yfirskini sparnaðar. Í atvinnumálum hefur ekkert komist að nema álver, fyrst á Keilisnesi í nafni iðnrh., en nú hefur forsrh. ýtt honum til hliðar og fundið nýja viðmælendur og ætlar að reisa álver í eigin nafni með aðstoð Kaiser-auðhringsins. Í vaxandi atvinnuleysi stendur ríkisstjórnin eins og þvara og virðist telja sér henta best að sitja á áhorfendapöllunum.
    Það lægi ekki mikið fyrir Alþingi á þessum haustmánuðum ef ekki væru hlössin sem utanrrh. hefur sturtað á borð þingmanna vegna EES-samnings. Það er líka EES-samningurinn sem á allt að leysa eins og þið heyrðuð úr munni forsrh. Hann talaði digurbarkalega um að nú ætti heldur betur að grisja reglugerðarskóginn í íslenska Stjórnarráðinu, en hann gleymdi að bæta því við að í staðinn ætlar hann að innleiða hér heilan frumskóg reglugerða frá Evrópubandalaginu. Fyrir þinginu liggur fjöldi frumvarpa sem fela í sér heimildir á heimildir ofan til íslenskra ráðherra um að kópíera reglugerðir frá Brussel.
    Frá því Alþingi kom saman í ágúst hefur tími þingmanna að mestu farið í að reyna að setja sig inn í samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þó vantar enn mikið á að samningurinn með öllu því sem honum fylgir liggi fyrir í heild og sá tími sem þinginu er ætlaður til þess að fjalla um hann er óheyrilega stuttur. Hið alvarlega er þó innihald þessa samnings sem gjörbreyta mun stjórnskipan og leikreglum íslenska lýðveldisins.
    Ef aðild að Evrópsku efnahagssvæði verður samþykkt verða löggjafarvald og verkefni Alþingis ekki nema svipur hjá sjón. Allt frumkvæði í lagasetningu á gildissviði samningsins yrði í höndum 17 manna framkvæmdastjórnar EB í Brussel og Alþingi hefði aðeins að forminu til möguleika á að hafna þessum lögum. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði væru Íslendingar líka að afsala sér mikilvægum stjórntækjum í efnahags- og atvinnumálum.
    Kjarni samningsins er að ekki er heimilt að mismuna eftir þjóðerni eða ríkisfangi. Þannig má ekki veita Íslendingum neinn forgang hér á landi umfram aðra þegna EES-svæðisins. Íslendingar eiga ekki lengur að njóta forgangs til atvinnurekstrar, eignar á landi og annars þess sem hingað til hefur verið talinn eðlilegur hluti af þegnrétti í landinu. Það blasir líka við að ekki verður hægt að mismuna varðandi kaup á landi og hlunnindum sem allir virðast hafa verið sammála um hingað til að halda bæri í eigu Íslendinga einna. Einu teljandi hagsbæturnar sem fást eiga með EES-samningnum eru tollalækkanir á sjávarafurðum og þær eru keyptar því verði að hleypa fiskiskipum frá Evrópubandlaginu inn í íslenska landhelgi.
    Á meðan Ísland og önnur EFTA-ríki gangast undir miðstjórnarvald EB magnast kröfur um aukið lýðræði í löndum Evrópubandlagsins. Almenningur hefur í hverju landinu á fætur öðru risið upp gegn áformum um að steypa Vestur-Evrópu í eina heild. Fólk mótmælir vaxandi miðstýringu og skerðingu á lýðræði. Það mótmælir enn frekari samruna í Evrópubandlaginu. Á Norðurlöndunum beinist andstaðan gegn EES og áformum ríkisstjórna um EB-aðild. Í þessu er lýðræðisvakningin fólgin. Við tökum þátt í henni hér á landi með því að hafna EES-samningi og koma í veg fyrir að Ísland verði hluti af því miðstýrða stórveldi sem nú er reynt að koma á í Evrópu gegn vilja fjöldans.
    Ríkisstjórnin hefur enn sem komið er verið mótfallin kröfunni um að þjóðin fái að segja álit sitt á EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Er hugsanlegt að ráðherrarnir hafi ekki meiri trú á ágæti þessa

samnings en svo að hann þoli ekki gagnrýna skoðun kjósenda? Krafan um þjóðaratkvæði á eftir að hljóma enn hærra og því verður ekki trúað að Alþingi láti hana sem vind um eyru þjóta. En það er á fleiri sviðum sem ríkisstjórnin er ekki í takt við almenning í landinu. Bölsýni og barlómur hefur verið hennar viðlag.
    Það er hins vegar annað hljóð í því fólki sem við kvennalistakonur hittum á ferðum okkar um landið í nýafstöðnu þinghléi. Menn eru að vísu ekki ánægðir með aðgerðir ríkisstjórnarinnar en það vakti athygli okkar að fólk úti á landi er yfirleitt bjartsýnt á möguleikana ef landstjórnin vinnur með en ekki á móti. Menn vilja trúa því að með samstilltu átaki verði þrátt fyrir allt hægt að snúa vörn í sókn. Ráðherrunum með forsrh. í broddi fylkingar væri hollt að taka sér ferð á hendur um landið og tala við fólk sem er tilbúið að berjast og ætlar ekki að leggja upp laupana þótt á móti blási. Grunnurinn að framtíð þjóðar er vel menntað og upplýst fólk. Þessu gera forustumenn flestra þjóða sér grein fyrir. Þegar að kreppir ber að leggja aukna áherslu á vísindi og menntun og vinna með þeim hætti að því að komast upp úr öldudalnum.
    Til að réttlæta gerðir ríkisstjórnarinnar vitnaði forsrh. til Norðurlanda í ræðu sinni og þeirra aðgerða sem þar er gripið til. Ég get upplýst hann um að þrátt fyrir niðurskurð í ríkisfjármálum er á Norðurlöndum reynt að standa vörð um mikilvægustu þætti velferðarkerfisins. Framlög til skólamála verða t.d. hækkuð verulega á næsta ári í Noregi þrátt fyrir mikinn samdrátt á flestum sviðum þjóðarbúskaparins. Hér á landi sýna ráðamenn ekki slíka framsýni. Íslenski menntmrh. gengur harðast fram í að brjóta niður menntakerfið og enn á að halda áfram skemmdarstarfsemi ef marka má fjárlagafrv. Ekki er hlutur heilbrrh. betri. Það eru fá málin sem hann hefur tekið sér fyrir hendur sem ekki hafa endað í fádæma klúðri og nú er hann farinn að sýna stjórnlist sína í beinni útsendingu frá símaklefa Alþingis. Allur barningur ráðherrans við að ná fram hagræðingu og sparnaði skilar engu þegar til lengri tíma er litið. Það fellst t.d. lítill sparnaður í því að loka deildum og láta fólk bíða eftir aðgerðum mánuðum saman. Sjúkdómurinn hverfur ekki við það. Það gengur heldur ekki til lengdar að ætla að stjórna með tilskipunum ofan frá án alls samráðs.
    Í umhverfismálum ætlaði ríkisstjórnin sér mikinn hlut ef marka má stjórnarsáttmálann. Þar hefur hins vegar lítið gengið eftir. Það er t.d. einkennandi fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar að þegar reynt er að fá hingað stóriðju eins og álver er látið undir höfuð leggjast að krefjast þeirra mengunarvarna sem nágrannaþjóðir okkar gera til þess konar iðnaðar. Ráðuneyti umhverfismála hefur ekki öðlast þann sess innan Stjórnarráðsins sem því ber og því miður hefur framsækin stefna í umhverfismálum látið á sér standa. Þetta er hörmuleg staðreynd. Íslendingar hefðu hins vegar alla möguleika á að vera í fararbroddi í umhverfismálum en þá verður líka að taka á með öðrum hætti en gert hefur verið hér innan lands.
    Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar bendir því miður ekki til stefnubreytingar á þessu sviði. Þótt mikilvægt sé að láta til sín taka í umhverfismálum á alþjóðvettvangi verður einnig að vinna heimavinnuna.
    Störf ráðherranna einkennast fyrst og fremst af úrræðaleysi og hálfkáki sem litlu skila. Ekki hefur örlað á viðleitni hjá ríkisstjórninni til að hafa samstarf eða samráð við stjórnarandstöðuna í þeim efnahagsörðugleikum sem við göngum í gegnum. Af féttum má ráða að þingflokkar ríkisstjórnarinnar séu ekki einu sinni hafðir með í ráðum í stórmálum.
    Góðir áheyrendur. Það hefur sannarlega frá upphafi verið holur hljómur í kjörorði ríkisstjórnarinnar um velferð á varanlegum grunni. Stjórnin hefur sjálf lagt mest af mörkum til að gera það slagorð sitt að markleysu. Engir hafa fundið meira fyrir því en konur sem oftast verða fyrstar fyrir barðinu á kreppu og samdrætti. Konum er nú ýtt út af vinnumarkaðnum í sívaxandi atvinnuleysi. Þær eru fjölmennastar í störfum í heilbrigðis- og menntakerfi þar sem niðurskurðurinn er mestur. Í stað launaðrar vinnu er nú ætlast til þess að þær ræki þjónustu við aldraða og sjúka launalaust inni á heimilunum. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði, þar sem atvinnuleysi kvenna er gífurlegt og staða kvenna víðast hvar til muna verri en hér á landi, yrði síður en svo til hagsbóta fyrir konur. Stefna ríkisstjórnarinnar bitnar þannig harðar á konum en körlum.
    Þeim fer nú ört fjölgandi sem spyrja í hverra þágu þessi ríkisstjórn starfi. Aðgerðaleysi hennar í aðsteðjandi vanda getur haft skelfilegar afleiðingar. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er alls engin lausn, eins og hún heldur, nema síður sé.
    Finnst ykkur, áhorfendur góðir, eitthvað að græða á stefnuræðu forsrh.? Mér sagði hún nákvæmlega ekki neitt. Boðskapurinn frá Viðey verður aldrei neinn bjarghringur fyrir íslenskt þjóðfélag. Þar verða önnur ráð að koma til. Kvennalistinn gerir kröfur um aðrar og breyttar áherslur, aðgerðir í stað sofandaháttar, jafnrétti í stað vaxandi mismununar. Við viljum byggja á þeim krafti sem enn býr með þjóðinni í þeirri fullvissu að við getum lifað hér áfram í landi okkar sem fullvalda þjóð.