Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 22:32:18 (1244)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Sagan endurtekur sig. Það sannast nú sem áður. Fyrir aldarfjórðungi hvarf síldin af miðunum við landið og mikil lægð í efnahag Íslendinga blasti við. Því var það að með skjótum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar sem einkum fólust í aukinni nýtingu í hefðbundnum veiðum á loðnu til bræðslu að fljótlega bættist þjóðarhagur að nýju.
    Margháttaðar framfarir héldu því brátt áfram með bærilegum hraða, sérstaklega þó í heilsugæslu og menntun, m.a. víða í hinum dreifðu byggðum landsins. Gott merki þess að djarflega hefur verið gengið til móts við þarfir ungra og aldraðra að hæfi þjóðar sem til framtíðar horfir.
    Fjárfestingin í landinu er gott dæmi um hvernig þjóðin hefur varið fjármunum sínum og lánsfé. Í þeim efnum hefur gjarnan verið tamt að tala um landbúnað sem sérstakan blóraböggul, einkum þó loðdýrabúskapinn og fiskeldið. Sannleikurinn er sá að fjárfesting í hefðbundnum landbúnaði hefur minnkað meira en samanlögð fjárfesting í fiskeldi og loðdýrabúskap. Annað verður hins vegar upp á teningnum þegar litið er til iðnaðar, verslunar, viðskipta og opinberra bygginga, auk véla og tækja. Á síðasta áratug jókst samanlögð fjárfesting í þessum greinum um 80 milljarða króna. Það er svipuð upphæð og kostnaður við álverið á Keilisnesi og virkjanir því tengdar var áætlaður. Umtalsverður hluti þessarar fjárfestingar stendur nú ónýttur og arðlaus og í þessum heimkynnum veldur nú atvinnuleysið mestum áhyggjum.
    Trúlega kunna menn söguna um hvað gerst hefur á miðunum við landið þar sem dýrmætustu fiskstofnarnir okkar hafa verið ofnýttir svo að mikil hætta stafar af. Þessi síðasti áratugur hefur því miður með mörgum hætti verið svartur í efnahagslegu tilliti. Þaðan kemur stærsti hluti þess vanda sem við stöndum nú frammi fyrir.
    Þegar síldin hvarf af miðunum forðum var þrengingum í efnahag þjóðarinnar bægt frá með sókn í aðra fiskstofna. Til slíks ráðs verður nú ekki gripið að neinu marki. Meira að segja eru þrengingar á sumum hefðbundnum mörkuðum auk þess sem rekstur margra þýðingarmikilla fyrirtækja á í vök að verjast. Vandinn er þó langstærstur í sjávarútveginum sem nú er rekinn með stórfelldum halla sem hlýtur að leiða til alvarlegrar niðurstöðu verði ekki að gert með skjótum og trúverðugum hætti.
    Ríkisstjórnin hefur mætt núverandi aðstæðum m.a. með tvennum hætti. Ákvörðun um stóraukna vegagerð og framlag sveitarfélaganna til Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem þau fá svo með álagi aftur til baka, beinir vinnuaflinu á aðrar og betri brautir og dregur úr atvinnuleysinu. Miklu stærri er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar um fiskveiðiheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þar var svo sem kunnugt er haft að markmiði að vöxtur gæti orðið í þorskstofninum svo að þessi mikilvæga auðlind vaxi til þess horfs sem var fyrir nokkrum árum. Þessi ákvörðun tekur til framtíðarinnar og markar því söguleg þáttaskil.
    Það er augljós staðreynd að okkur Íslendingum er mikill vandi á höndum, sennilega hefur ekki verið jafnhart á dalnum allan lýðveldistímann. En til þess eru líka erfiðleikarnir að takast á við þá. Ég er sannfærður um að til þess er íslenska þjóðin albúin.
    Það verða einungis fá orð sem ég tala að þessu sinni til bænda landsins. Ekki svo að skilja að fyrir hendi séu ekki tilefni til þeirrar umræðu. Sauðfjárbændum hefur nýlega borist tilkynning um að umsaminn framleiðsluréttur á næsta ári færi ráðstöfunartekjur þeirra niður um að minnsta kosti 20%. Þessi niðurstaða auk fleiri ákvarðana sem verka til sama vegar eru ósamrýmanlegar venjulegum viðskiptamáta milli fólksins í þessu landi svo að óhjákvæmilegt er að bregðast hér við. --- Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.