Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 22:44:20 (1246)


     Halldór Ásgrímsson :

    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Haustið er að líða hjá með öllum sínum hefðbundnu einkennum. Dagurinn styttist, trén fella laufið og undirbúningurinn fyrir veturinn er í fullum gangi. En það er jafnframt haustlegt um að litast í öllum þáttum íslensks þjóðfélags um þessar mundir. Sjaldan muna menn eftir jafnmikilli svartsýni og nú er meiri þörf fyrir athafnasemi, góð ráð, samstöðu, ráðdeild og heilbrigða skynsemi en nokkru sinni fyrr. En erum við að undirbúa vetrarhörkuna með sama hætti og náttúran hefur tamið sér? Erum við að berjast gegn atvinnuleysinu með öllum þeim krafti og samtakamætti sem við eigum til? Ég held að þessum spurningum verði að svara neitandi.
    Það verður enginn einn aðili dreginn til ábyrgðar. Stöðug leit að sökudólgum og skipulagt grúsk um fortíðina leysa engan vanda. En þótt ríkisstjórn Íslands beri ekki ábyrgð á breyttum utanaðkomandi aðstæðum og ýmsu því sem gerst hefur til hins verra þá hefur hún meiri skyldur en aðrir við undirbúning og aðlögun að breyttum aðstæðum. Undirbúningurinn skiptir oftast sköpum ef vel á að fara og við hljótum að gagnrýna harðlega það fljótræði og óvönduð vinnubrögð sem ríkja í mörgu á stjórnarheimilinu. Þetta hefur ekki síst orðið til þess að ríkisstjórnin hefur misst traust almennings og aðila vinnumarkaðarins til að fást við ýmis úrlausnarefni dagsins. Það er ekki nóg að segja daglega að stöðugt gengi og Evrópskt efnahagssvæði séu þeir bjargvættir sem beri að treysta á. Þótt samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði séu vissulega mikilvægir fyrir atvinnulífið er það grundvallaratriði að undirbúningurinn hér heima fyrir sé vandaður. Atvinnulífið er illa undir það búið að standast vaxandi alþjóðlega samkeppni. Framleiðslukostnaðurinn er of hár, eiginfjárstaðan er óviðunandi og því verður að lækka kostnaðinn og stöðva tapreksturinn.
    Hæstv. forsrh. sagði áðan, með leyfi forseta: ,,Því er ljóst að nú verða gerðar meiri kröfur til forsvarsmanna í sjávarútvegi en þeir hafa þurft að mæta á undanförnum árum. Áríðandi er að þeir víkist ekki undan þeim kröfum.`` Þetta eru helstu skilaboðin frá ríkisstjórninni til mikilvægustu atvinnugreinar þjóðfélagsins. Á hún að þola aukna skattheimtu, 8% tap á næsta ári og óvissu um stefnuna í sjávarútvegsmálum? Hæstv. forsrh. veit af reynslunni að ríkissjóður getur ekki mætt öllum kröfum en hann virðist ekki gera sér grein fyrir að þessi atvinnugrein er að sligast vegna utanaðkomandi áfalla, kröfugerðar og skilningsleysi stjórnvalda. Hvað á hæstv. forsrh. við? Hafa forsvarsmenn sjávarútvegsins skorast undan ábyrgð?
    Það er ljóst af ummælum undanfarið að hæstv. forsrh. hlustar ekki á ráð þessarar atvinnugreinar og ekki heldur á sjútvrh. í eigin ríkisstjórn. Ef einhver er að víkjast undan þá er það hæstv. forsrh. sem neitar ráðum þeirra sem best þekkja til í greininni.
    Kjarasamningarnir 1990 og það sem þeim fylgdi mörkuðu tímamót í efnahagsmálum. Samstaðan sem myndaðist var ekki síst að þakka að almennur skilningur var fyrir því að hagsmunir launþega og atvinnurekenda væru samofnir. Nú þegar við hlustum á fréttir af uppsögnum og gjaldþrotum í hverjum fréttatíma er ljóst að sjaldan eða aldrei hefur verið jafnmikil þörf fyrir átak gegn atvinnuleysi og að skapa aðstæður til að auka framleiðsluna. Grunnurinn, sem var lagður 1990, er dýrmætari en flest annað og hann verður að varðveita og styrkja. En til þess þarf samvinnu og gagnkvæmt traust milli aðila.
    Því miður virðist ríkisstjórnin ekki megna að virkja samtakamátt fólksins og því þarf að skapa meiri breidd með einhverju móti. Við sem störfum í stjórnarandstöðu hljótum að horfa til aðila vinnumarkaðarins í þessu sambandi og vænta þess að þeir taki nauðsynlega forustu og leiði ríkisstjórnina inn á réttar brautir. Stjórnarandstaðan hefur af skiljanlegum ástæðum ekki stöðu til að taka forustu í atvinnumálum en aðilar vinnumarkaðarins nú sem fyrr geta haft þar úrslitaáhrif. Breið pólitísk samstaða getur ekki skapast nema með þátttöku sem flestra en grundvallaratriðið er að ríkisstjórnin sýni vilja og áhuga. Þessi vilji hefur ekki komið fram í kvöld. Hæstv. viðskrh. gerði m.a. lítið úr öðrum og vilja annarra. Hann sagði að ríkisstjórnin kveikti ljósið og það mátti skilja að þeir hefðu svipaðan mátt og þegar guð skapaði heiminn. Við það verk þyrftu þeir ekki ráðherra sem ráfuðu um í myrkrinu. Með slíkum orðum skapa menn ekki samstöðu eða leggja grunn að framþróun. Þeir sem telja sig ráða yfir ljósinu hafa oftast endað í myrkrinu.
    Það má taka mörg dæmi sem sanna að forusta ríkisstjórnarinnar hefur mistekist. Ríkisstjórnin svaraði erfiðleikum sjávarútvegsins og vaxandi aflasamdrætti með aukinni skattheimtu á greinina. Tilkynntar eru breytingar á virðisaukaskatti sem rýra samkeppnisstöðu atvinnulífsins og fá ekki staðist. Fjárlagafrv. treystir ekki gengisstefnuna og er í raun frv. til laga um að fella gengið. Gengið verður ekki stöðugt með orðum ríkisstjórnarinnar heldur með efnahagslegum aðgerðum og á það höfum við framsóknarmenn lagt áherslu.
    Samstarf við sveitarfélögin einkennist af tilviljanakenndum ákvörðunum og skorti á samráði í stað þess að nýta það svigrúm sem fyrir hendi er til að lækka kostnaðartengda skatta. En það er ekki nóg að gagnrýna og í reynd virðist núv. ríkisstjórn taka afar lítið tillit til gagnrýni. Því miður hefur vonleysi og aðgerðaleysi náð of sterkum tökum á þjóðinni. Flestir eru að hugsa um aðhald og samdrátt og því er eðlilegt að atvinnuleysi aukist dag frá degi. Það mun skapa ósætti, bágindi og ranglæti sem getur leitt af sér þjóðfélagsátök sem erfitt verður að ráða við.
    Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta fjárlagafrv. Skapa verður meira svigrúm til aðgerða í atvinnumálum. Það kann að vera nauðsynlegt að skera útgjöld meira niður og einnig þarf að endurskoða tekjuáætlunina. Með þessu ætti að vera hægt að skapa meira svigrúm þannig að ríkissjóður og sveitarfélögin geti lækkað kostnaðartengdu gjöldin og veitt meira fjármagni til atvinnuskapandi aðgerða.
    Jafnframt er hægt að ná fram sparnaði með ýmsum breytingum á vinnulöggjöf og samningum milli launþega og atvinnurekenda. Ef hægt er að auka atvinnu með því að breyta ýmsum vanhugsuðum og óraunhæfum reglum í íslensku atvinnulífi, þá eigum við að gera það. Opinberar kröfur og ýmis ákvæði kjarasamninga eru ekki öll byggð á raunsæi og skynsemi. Við erum mjög skuldsett þjóð og þess vegna þurfum við að fá áhættufjármagn til nýjunga í atvinnulífinu.
    Flestar þjóðir hafa unnið skipulega að því að laða til sín meiri fjárfestingar og við verðum líka að gera það. Það á að vera forgangsverkefni íslenskrar utanríkisþjónustu að vinna að slíkum málum á næstunni.
    Lífeyrissjóðirnir verða jafnframt að auka þátttöku í atvinnulífinu og leggja þar fram áhættufé. Í því sambandi hlýtur að koma til greina að hækka iðgjöld þeirra, enda bendir flest til þess að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni.
    Við getum nýtt auðlindir okkar betur og skapað með því fleirum atvinnu. Það ber að beita fiskveiðistefnunni í þeim tilgangi. Í því sambandi má nefna álag vegna útflutnings á óunnum fiski og betri verkaskiptingu milli land- og sjófrystingar.
    Þótt ýmsar efnahagslegar umbætur geti skilað okkur fram á veg skiptir hugarfarið ekki minna máli. Það vantar kraft í íslenskt samfélag, það vantar trú á framtíðina og þá möguleika sem við höfum. Núv. ríkisstjórn getur ein og sér ekki breytt þessu ástandi. Þetta er staðreynd sem hún getur ekki gengið fram hjá og því á hún aðeins tvo kosti. Annar er sá að gerbreyta um vinnubrögð og leita eftir víðtækari samstöðu í samfélaginu. Hinn er sá að viðurkenna mistökin og segja af sér.
    Senn mun vetur ganga í garð og lítill tími til stefnu. Atvinnulífið þolir ekki stjórnarstefnuna. Umræðurnar í kvöld gefa of litlar vonir um breytingar en umræðan mun halda áfram og ríkisstjórnin verður að taka tillit til hennar. Hæstv. forsrh. sagði hér í kvöld: ,,Ísland hefur öll skilyrði til þess að hér megi dafna öflugt atvinnulíf.`` Því miður vantar margt á að þessi fullyrðing standist, það sýnir þróunin að undanförnu best. Við hljótum því að ráðleggja hæstv. forsrh. að taka meira tillit til atvinnulífsins, vinna með öllum þeim sem vilja því vel og skapa nauðsynleg skilyrði svo hér megi dafna öflugt atvinnulíf. Ef hæstv. forsrh. gerir það ekki ber honum að segja af sér fyrir sína hönd og ríkisstjórnar sinnar. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.