Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 23:15:35 (1249)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Hafi menn ekki áður heyrt innihaldslitla stefnuræðu og án markmiða þá hefur það gerst nú. Í þessari ræðu var enga lausn að finna hvorki á vanda atvinnuveganna né á atvinnuleysinu sem kemur í kjölfarið.
    Við höfum heyrt iðnrh. ræða hér um kertaljós. Ég hélt að ráðherra iðnaðar- og orkumála væri svo stórhuga nú á tímum rafmagnsljósa að ætla íslenskri þjóð betra hlutskipti en fara aftur að lifa við flöktandi kertaljós.
    Forsrh. valdi að ræða um Evrópskt efnahagssvæði og alla dásemdina sem okkur væri að hlotnast með þeim samningum. Ekki nefndi hann þó neitt áþreifanlegt heldur að tollalækkanir og frjáls samkeppni muni leiða til aukinnar hagkvæmni og verðlækkunar á þjónustu. Hann sagði hér áðan: ,,Allt þetta mun skila sér í auknum hagvexti, lægri verðbólgu og vöxtum og auknum kaupmætti . . .  `` --- Það minnti mig á setninguna sem flestir lærðu í biblíusögum í barnaskóla: Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.
    Ég hef ekki fundið í samningnum um EES neitt það sem segir mér að viðskiptakjör muni batna á næsta ári, að atvinnuleysi fari minnkandi og kaupmáttur vaxi. Þvert á móti sé ég fyrir mér minnkandi útflutning þar sem við hljótum að hafa minna til að selja með minnkandi fiskveiði, jafnvel þó einhverjir tollar falli niður.
    Ekki eykst útflutningur á stóriðju. Járnblendið og álið sjá ekki fyrir sér batnandi kjör á næsta ári. Iðnaðurinn mun eiga erfitt uppdráttar á hinum stóru mörkuðum í Evrópu og hefur ekki rekstrarskilyrði til að vera samkeppnisfær. Hvað er það þá sem gefur okkur batnandi viðskiptakjör? Ég fékk ekkert svar við því í stefnuræðu forsrh.
    Á undanförnum vikum höfum við heyrt daglega fréttir af uppsögnum starfsfólks hinna ýmsu fyrirtækja. Þar er um að ræða 30--50 manns á degi hverjum. Á þessu ári var spáð að atvinnuleysi yrði um 2% en það stefnir í 3--4%. Og á næsta ári segir Þjóðhagsstofnun líklegt að atvinnuleysið verði 3,5%. En Þjóðhagsstofnun hefur bara ekki reynslu í því að spá fyrir um atvinnuleysi hér á landi. Atvinnurekendur eru heldur ekki sammála þessari spá. Þeir tala um 4--6% atvinnuleysi á næsta ári, jafnvel allt að 10% og það mun hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér.
    Skuldir heimilanna hækkuðu mikið á árinu 1991 og hafa ekki minnkað. Grunninum er kippt undan tilveru fólks þegar tekjuáætlanir fara úr skorðum og vandamálin sem koma í kjölfarið eru af margvíslegum toga. Menn leita sér huggunar í vímuefnum, sjálfstraustið brestur þegar fólk missir vinnuna. Ekkert er fram undan nema vonleysi, peningaleysi og einmanaleiki. Afleiðingar atvinnuleysisins munum við sjá á næstu vikum og mánuðum. Þær munu m.a. koma fram í aukinni ásókn í félagslega þjónustu og meira álagi á heilbrigðiskerfið. Sá hluti innlagna á sjúkrastofnanir, sem er vegna geðsjúkdóma og félagslegra vandamála, verður stærri. Á sama tíma er 2 milljarða niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Og atvinnuleysið í Evrópubandalagsríkjum er tvö- til þrefalt á við það sem er hjá okkur svo þar er ekki á vísan að róa með atvinnu.
    Atvinnuleysistryggingasjóður þarf mun meira fjármagn ef hann á að geta staðið við lögbundin framlög vegna þessa ástands. Þar að auki tekur hann ekki á málum þeirra sem eru að ljúka námi og koma út á vinnumarkaðinn í leit að vinnu. Sem dæmi vil ég taka unga einstæða móður með tvö börn. Hún lauk kennaraprófi sl. vor og hefur leitað að vinnu alls staðar en ekkert fengið. Hún fær heldur ekki atvinnuleysisbætur því til þess þarf hún að hafa verið í vinnu a.m.k. í 425 vinnustundir á síðustu tólf mánuðum.
    Vill ríkisstjórnin að slíkt ástand verði viðvarandi í þessu þjóðfélagi? Eða hvað gerir ríkisstjórn Íslands? Hver er boðskapur forsrh. í þessari alvarlegu stöðu sem ég tel að sé höfuðviðfangsefni hverrar ríkisstjórnar, þ.e. að sjá til þess að atvinnulífið gangi því á því stendur eða fellur þetta þjóðfélag sem við búum í?
    Góðir áheyrendur. Í sem stystu máli er boðskapurinn þessi: Fastgengisstefna hvað sem á dynur. Fyrirtækin geta spjarað sig sjálf. Sjávarútvegsfyrirtækin sameinast. Það á að leysa öll vandamál þrátt fyrir gífurlega skuldsetningu.
    Ekki hafði forsrh. mörg orð um landbúnaðinn. Ofstjórn, miðstýring, áþján og klafi voru þau helstu. Að benda á úrræði eða nýjar leiðir var ekki gert. Töfralausnin var Evrópska efnahagssvæðið.
    Við kvennalistakonur mælum ekki með gengislækkun en verðum við ekki að taka mið af því sem er að gerast í okkar helstu viðskiptalöndum? Á árinu 1988 var fastgengisstefnan reynd en það gleymdist

að kostnaðarhækkanir héldu áfram innan lands því þá var verðbólgan á fullri ferð. Þá var gengið mjög á eigið fé fyrirtækja og reksturinn fór allur úr skorðum. Mörg fyrirtæki hafa ekki borið sitt barr síðan. Nú er verðlag stöðugt innan lands en myntkarfan sem við miðum okkur við í viðskiptum við önnur lönd hlýtur að vera úr lagi gengin eftir þær sveiflur sem orðið hafa t.d. í Bretlandi með falli pundsins. Ég hlýt að varpa því fram hvort ekki geti verið þörf á að endurskoða þá samsetningu gjaldmiðla sem eru í þessari svokölluðu myntkörfu.
    Stjórnvöld hér á landi trúa nú um stundir á lögmál markaðarins í þessa orðs fyllstu merkingu. Það sem þau virðast ekki skynja er að þau lögmál virka ekki hér á landi. Þau lögmál gilda við ákveðnar aðstæður, svo sem þar sem stærðarhagkvæmni er hægt að ná og þar sem þjóðfélagsþegar skipta milljónum, þar sem lönd eru þéttbýl o.s.frv.
    En þær aðstæður eru bara ekki fyrir hendi hér á landi nema þá að einhverju leyti á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þó hefur atvinnuleysi þar aukist meira en á landsbyggðinni og fer vaxandi, sérstaklega meðal kvenna. Einu tillögur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum eru að á næsta ári skal leggja 2 milljarða króna til atvinnuskapandi framkvæmda eins og það heitir. Og hverjar eru þær? Meginhluta fjármagnsins skal varið til vegaframkvæmda eða 1.800 millj. kr. Þetta er tilkynnt sem viðbótarframlag sem það alls ekki er. Í fyrsta lagi var búið að skerða vegáætlun í fyrra um 350 millj. kr. Í ár var niðurskurðurinn 750 millj. og á næsta ári var búið að ákveða 900 millj. kr. niðurskurð í vegaframkvæmdum í fjárlagafrv. sem nú liggur frammi. Þarna er því aðeins verið að draga til baka þann niðurskurð sem ýmist var staðreynd eða fyrirhugaður. Um það væri svo sem allt gott að segja en vel að merkja, þetta á að greiðast af framkvæmdafé Vegagerðar á næstu árum. Það verður dregið úr framkvæmdum sem því nemur á næstu árum. Þetta er því allt saman einn allsherjarfeluleikur. Það er verið að færa tölulegar staðreyndir í spariföt svo þær líti svolítið betur út.
    Ef ríkisstjórnin vildi styðja atvinnuskapandi framkvæmdir ætti hún að líta til þess sem konur úti um allt land eru að gera. Þar hefur hugkvæmni og sköpunargáfa fengið að njóta sín. Þar hefur verið farið smátt af stað en þess gætt að reisa sér ekki hurðarás um öxl. Það starf er víða að skila árangri og skapar aukna atvinnu í dreifbýlinu. Þar er fólginn vaxtarbroddur nýrra atvinnutækifæra. En stóru strákarnir í ríkisstjórninni sjá bara verktaka og stórar vinnuvélar og halda að það eitt geti aukið atvinnu.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þetta land á ærinn auð ef menn kunna að nota hann en til þess verða stjórnvöld á hverjum tíma að vera gædd víðsýni og skilningi á mannlegu samfélagi. Þau verða líka að þora að skattleggja þá sem eiga fjármagnið, bæði með fjármagnsskatti og hærra skattþrepi tekjuskatts og þau verða með aðgerðum sínum að bæta rekstrarskilyrði bæði fyrirtækja og heimilanna í landinu. En þeir sem halda um stjórnvölinn á þjóðarskútunni eru rígbundnir í hagfræðikenningar og fylgja þeim í blindni.
    Ég vil að lokum benda stjórnarliðum á þá staðreynd að sá veldur sem á heldur. --- Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.