Meðferð fíkniefnamála

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:36:17 (1253)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Þau eru góð miðað við allar aðstæður. Það er ekki hægt að svara þessum málum skýrar á þessu stigi málsins. Hér er í raun og veru ekki verið að tala um þann tíma sem þessi mál hafa tekið fyrir dómstólum fyrst og fremst, heldur hjá lögreglustjóra og saksóknaraembætti. Það er rétt sem hæstv. dómsmrh. sagði að ýmis mál hafa legið sérkennilega lengi hjá saksóknaraembættinu að mínu mati, hvort sem þar er um að ræða að saksóknaraembættið sé of fáliðað eða einhverjar aðrar ástæður, t.d. þær að menn eigi erfitt með að koma málum í eðlilega forgangsröð. En ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans og lít þannig á að hann muni áður en langur tími líður gera þinginu grein fyrir þessu máli.