Misnotkun áfengismeðferðar

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:37:14 (1254)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sl. vor samþykkti meiri hluti Alþingis breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, m.a. á þeim furðulegu forsendum að lítill hópur námsmanna misnotaði rétt sinn til lána og allur fjöldinn skyldi látinn gjalda þess. Tilgangur var þó auðvitað sá að skera niður fjármagn til Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Nú um helgina lét hæstv. heilbrrh. þau orð falla í fjölmiðlum að hópur manna færi aftur og aftur í áfengismeðferð sér til hressingar og heilsubótar, þ.e. þeir legðu á sig fundi, viðtöl og kafanir í sálardjúpin án þess að hugur fylgdi máli, eins og ráðherra komst að orði. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hann sé þeirrar skoðunar að um misnotkun sé að ræða, m.a. hjá SÁÁ, eða er enn og aftur verið að beita rökum af þessu tagi til þess eins að réttlæta verulegan niðurskurð á framlögum til áfengismeðferðar? Eiga þeir sem þjást af áfengissýki nú að gjalda þess að hópi manna finnist svona gott að vera á Vogi eða annars staðar þar sem áfengismeðferð er veitt? Eiga þeir að gjalda þess?