Hækkun raunvaxta hjá Íslandsbanka

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:41:22 (1258)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla að beina þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. hvaða rök liggi á bak við það að Íslandsbanki hefur ákveðið að hækka raunvexti. Er það stjórnarstefnan sem knýr bankann til þess, fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram? Er ástæðan e.t.v. sú að mjög mikil töp séu í farvatninu hjá Íslandsbanka?
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að bankinn hefur lagt í afskriftasjóð álíka háa upphæð og Landsbankinn þrátt fyrir það að bankinn sé með um helmingi minni veltu og vitað var að búið var að fjarlægja út úr Útvegsbankanum áður en Íslandsbanki yfirtók hann hugsanleg töp sem þar voru.
    Það hlýtur að vekja mikla athygli þegar bankinn, sem hæstv. viðskrh. lagði mikið kapp á að koma á fót, stefnir þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar, hækkar raunvexti í landinu og er raunverulega að boða með þessu að vextir séu of lágir.
    Hæstv. viðskrh. hlýtur að hafa fylgst grannt með þessu máli og ég vænti heiðarlegs svars.