Hækkun raunvaxta hjá Íslandsbanka

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:43:41 (1259)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Vestf. spyr mig hvaða rök liggi að baki tiltekinni vaxtaákvörðun hjá sjálfstæðri bankastofnun, fyrirtæki sem að sjálfsögðu lýtur ekki stjórn ráðherrans.
    Eins og fram hefur komið í fréttum hafa þeir ákveðið að hækka raunvexti sína lítillega og vísa þar til markaðsvaxta. Þeir hafa ekki vísað til þess að tap hafi orðið meira í þeirra rekstri en þeir höfðu gert ráð fyrir. Ég get ekki sagt neitt um rökin sem liggja að baki þessu máli hjá þeim annað en að vísa til þess sem fram hefur komið opinberlega. Ég vildi þó leyfa mér í umræðu um þessa fyrirspurn benda á að ríkið hefur fyrir sitt leyti alveg nýlega lækkað raunvexti.