Dómar í kynferðisafbrotamálum

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:46:42 (1262)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur vakið óhug manna að undanförnu hve vægir dómar hafa fallið í alvarlegum ofbeldismálum þar sem beitt hefur verið kynferðislegu ofbeldi, m.a. gagnvart börnum og unglingum. Einnig er mikið um að alvarleg kynferðisafbrotamál séu felld niður hjá rannsóknarlögreglu eða ríkissaksóknara. Þetta kom fram í svari við skriflegum fyrirspurnum mínum fyrir einu og hálfu ári um málsmeðferð kynferðisafbrota gagnvart börnum.
    Þetta hlýtur að vekja spurningar um hvort ekki sé ástæða til að skoða meðferð slíkra mála betur. Refsiramminn er skýr og hefur nýlega verið hertur. Ofbeldisglæpir þar sem kynferðisofbeldi er beitt eru lagðir að jöfnu við aðrar alvarlegustu líkamsárásir, svo sem limlestingar, morð og manndráp. Heimilt er að beita þungum refsingum en það er ekki gert. Hvað veldur? Enginn dregur sjálfstæði dómsvaldsins í efa né að nýuppkveðnir dómar séu út af fyrir sig innan ramma laganna. En er ekki eitthvað að löggjöf okkar fyrst hún tekur ekki af öll tvímæli um að kynferðisglæpir séu brot sem ber að taka hart á?
    Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi í hyggju að láta taka saman upplýsingar um dóma sem kveðnir hafa verið upp í kynferðisafbrotamálum undanfarin ár og niðurfellingar alvarlegra kynferðisafbrotamála. Einnig hvort hann sé reiðubúinn til að láta kanna á vegum ráðuneytisins hvaða leiðir sé unnt að fara í lagasetningu ef í ljós kemur, sem ég vænti að verði, að oft séu kveðnir upp ótrúlega vægir dómar í alvarlegum kynferðisafbrotamálum eða mál jafnvel felld niður.